Spennulaus kosning að baki
Kosningabaráttan var lágsigld og kosningasjónvarpið jafnvel enn minna spennandi en hún.
Úrslit forsetakosninganna í gær (27. júní) komu engum á óvart. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hlaut 92,2% atkvæða en Guðmundur Franklín Jónsson 7,8%. Kjörsókn var 66,9%, en 168.821 greiddi atkvæði. Þar af voru auð og ógild atkvæði 5.111, eða 4.043 auðir og 1.068 ógildir. Á kjörskrá voru 252.267.
Guðmundur Franklín sagði að þriðji orkupakkinn hefði knúið sig til framboðs. Orkupakkamálið var blásið út fyrir öll skynsamleg mörk. Útreið Guðmundar Franklíns í forsetakosningunum ætti endanlega að jarða þetta deilumál.
Kosningavaka ríkisútvarpsins var með öllu óspennandi enda ekkert um að ræða. Strax eftir fyrstu tölur lá fyrir að Guðni Th. fengi yfir 90% atkvæða.
Ólafur Þ. Harðarson og Bogi Ágústsson í kosningasjónvarpi að kvöldi 27. júní 2020 (skjáskot ruv.is).
Bogi Ágústsson fréttamaður og Ólafur Þ. Harðarson prófessor brugðu gömlum prósentutölum á skjáinn og gerðu meðal annars samanburð á því sem gerðist núna og þegar Sigríður Þorsteinsdóttir úr Flokki mannsins í Vestmannaeyjum bauð sig fram gegn Vigdísi Finnbogadóttur árið 1988. Þá fékk Sigríður 5,3% atkvæða en Vigdís 92,7%, auð og ógild atkvæði voru 2%. Kjörsókn var 72% tæplega 175.000 á kjörskrá.
Tölurnar sýna að fylgi Guðna Th. er hlutfallslega á sama róli og Vigdísar árið 1988. Á ruv.is kemur fram að nú sagði Ólafur Þ. Harðarson:
„Það kom greinilega fram í kosningabaráttunni að stefnuáherslur Guðmundar eru mjög í anda popúlískra hreyfinga eða lýðhyggjuhreyfinga vestan hafs og austan en slíkar hreyfingar hafa eins og menn vita fengið aukið fylgi síðastliðin ár.“ Ólafur sagði að margir teldu að lýðhyggja eða popúlismi væri uppnefni en fyrir stjórnmálafræðinga væri það merkimiði, eins og til dæmis sósíalismi, og kapítalismi.
Ólafur Þór sagði að eitt kennimerki lýðhyggjuhreyfinga væri að skipta þjóðinni upp í almenning og elítu. „Ef þeir segja oft elítan ferðu að hugsa: kannski eru þeir í þessum hópi.“ Einnig væri andstaða við Evrópusambandið algeng með lýðhyggjuflokkum. Þetta passaði við málflutning Guðmundar Franklíns.“
Vegna þessa boðskapar Ólafs Þ. og tilrauna til að tengja Guðmund Franklín við Miðflokkinn sagði Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, á Facebook að kvöldi kjördags:
„Á RÚV að leika lausum hala í allt kvöld með háskólaprófessor í broddi fylkingar að tala niður til Miðflokksins
Ég vonaðist eftir skemmtilegu kosningasjónvarpi
Sú von er farin ...!!!
Ólafur er meira að segja móður að flytja þessar falsfréttir og er frekar æstur
Svona er hægt að breyta góðum samfélögum - til hins verra.“
Kosningabaráttan var lágsigld og kosningasjónvarpið jafnvel enn minna spennandi en hún. Vegna fjárhagslegs styrks getur ríkisútvarpið leyft sér tilgangslausa dagskrárgerð af þessu tagi.