Spennandi breytingatímar
Þetta eru spennandi breytingartímar fyrir þann sem skrifar um íslensk stjórnmál og alþjóðmál fyrir utan að fylgjast af áhuga með þróun fjölmiðla.
Þetta eru spennandi breytingartímar fyrir þann sem skrifar um íslensk stjórnmál og alþjóðmál fyrir utan að fylgjast af áhuga með þróun fjölmiðla.
Í fyrsta lagi: Íslensk stjórnmál taka á sig nýjan svip. Á ótrúlega skömmum tíma hefur ríkisstjórnin tapað frumkvæðinu.
Í stað höfuðmarkmiðs forystuflokks stjórnarinnar, Samfylkingarinnar, í kosningabaráttunni, að berja niður verðbólguna og stjórna ríkisfjármálum á betri veg, fór stjórnin af stað með illa undirbúnum lagafrumvörpum og stórkallalegum yfirlýsingum um að þau yrðu öll afgreidd á mettíma á alþingi.
Allt hefur þetta farið í handaskolum. Verðbólgudraugurinn er kominn á kreik að nýju. Skattahækkanir eru í augsýn. Ótti um stöðnun einkennir atvinnulífið.
Flokkur fólksins verður að engu fari svo fram sem horfir. Viðreisn kremst undir skattahækkunum sem hún lofaði að yrðu ekki á sinni vakt. Innan Samfylkingarinnar vakna spurningar um forystuhæfni formannsins.
Sjálfstæðismenn leita enn vopna sinna undir nýrri forystu. Þeir náðu undirtökunum á alþingi á lokadögunum fyrir sumarhlé ásamt Miðflokknum og framsóknarmönnum sem bíða þess sem verða vill í formannskjöri.
Við blasa stórátök vegna spurningarinnar um aðild Íslands að ESB. Í þeim verða menn að ýta ágreiningi vegna túlkunar á EES-samningnum til hliðar. Þá skapast nýjar fylkingar á átakavelli stjórnmálanna.
Í öðru lagi: Hvenær kemur að því að stjórnendur Evrópuþjóðanna viðurkenna að Rússar séu í stríði við þá – en ekki aðeins Úkraínu? Nýr kanslari Þýskalands, Friedrich Merz, stendur nú næst því að segja þetta beinum orðum. Stríðið er háð í netheimum og gegn köplum neðansjávar þar sem ódæðismenn geta hulið slóð sína. Á báðum þessum sviðum steðjar hætta að okkur Íslendingum. Hvenær og hvernig kemur hún upp á yfirborðið?
Í Evrópu eru efasemdir um stuðning Bandaríkjastjórnar Trumps færist átökin við Rússa á nýtt stig. Það er algjör misskilningur að öryggi Íslands aukist með því að fjarlægjast Bandaríkin í stjórn- og öryggismálum með aðild að ESB.
Í þriðja lagi: Gjörbreyting hefur orðið á íslenskri fjölmiðlun. Morgunblaðið er eina prentaða dagblaðið og auk þess er Viðskiptablaðið gefið út vikulega. Bæði blöðin má skilgreina sem miðhægri blöð. Hér hafa rutt sér til rúms öflug hlaðvörp sem hafna vókisma og vinstrimennsku. Þau skipa sér á annan kant fjölmiðlunar en ríkisútvarpið (RÚV) sem hallast til vinstri bæði í innlendum og erlendum samfélagsmálum. Lengst til vinstri er síðan Samstöð sósíalista sem ber alls ekki nafn með rentu vegna ágreinings um nafn hennar í baklandi hennar.
RÚV hefur ekki lengur burði til að halda úti tveimur sjónvarpsfréttatímum fjögur kvöld í viku. Sjónvarpsfréttir RÚV standast engan samanburð við það sem menn geta séð í erlendum sjónvarpsstöðvum. Það er undantekning að í innlendum fréttum bæti sjónvarpið nokkru við það sem segir í útvarpsfréttum.
Óljóst er hvernig Sýn ætlar að haga fréttamiðlun og opinni dagskrá til framtíðar í sjónvarpi. Hjá Sýn yrði nýtt lífsmark í allri fréttamiðlun ef horfið yrði frá stefnu sem virðist stundum helst vilja vera til vinstri við RÚV. Þar blómstrar ekkert, jafnvel ekki á kostnað skattgreiðenda.