3.12.2021 10:40

Spennan vegna Úkraínu

Nú skipa Rússar ekki aðeins herafla sínum ögrandi á Krímskaga og við austur landamæri Úkraínu heldur einnig í norðri við landamæri Hvíta-Rússlands og Úkraínu.

Óhætt er að segja að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hafi stokkið strax út í djúpu laugina í umræðum um utanríkis- og öryggismál eftir að hún tók við embætti sínu mánudaginn 29. nóvember.

Hún hélt beint til Riga í Lettlandi þar sem hún sat tveggja daga ráðherrafund NATO og síðan fór hún til Stokkhólms þar sem hún sat árlegan utanríkisráðherrafund ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.

Á NATO-fundinum beindist athyglin mest að hersafnaði Rússa umhverfis Úkraínu. Nú skipa Rússar ekki aðeins herafla sínum ögrandi á Krímskaga og við austur landamæri Úkraínu heldur einnig í norðri við landamæri Hvíta-Rússlands og Úkraínu. Rússar beita síðan öllum ráðum til að hindra frjálsar siglingar um Svarta haf við vesturströnd Úkraínu. Fyrir utan ögrandi ummæli þeirra í garð stjórnarinnar í Kiev og beitingu fjölþátta aðgerða í netheimum til að blekkja almenning í Úkraínu með upplýsingaóreiðu.

640x427_cmsv2_708a9bde-4f3c-5bb6-977d-696ddd7ca609-6277590Antony Blinken og Sergeij Lavrov í Stokkhólmi 2. desember 2021.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hitti Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í tengslum við ÖSE-fundinn og sagð að það hefði „alvarlegar afleiðingar“ fyrir Rússa ef þeir sýndu Úkraínumönnum meiri yfirgang.

„Við vitum ekki hvað vakir fyrir Pútin forseta. Við vitum ekki hvort hann hefur ákveðið að láta aftur til skarar skríða með valdi gegn Úkraínu. Hitt vitum við að hann hefur gert ráðstafanir til að gera það með skömmum fyrirvara. Það sem mestu máli skiptir fyrir Rússa er að þeir skilji að aðgerðir í þessa veru draga á eftir sér dilk fyrir þá. Afleiðingarnar eru raunverulegar. Þær eru ekki Rússum í hag og það er engum í hag að til átaka komi,“ sagði Blinken við Euronews í Stokkhólmi.

Rússar segjast ekki hafa nein áform um að ráðast á Úkraínu. Ásakanir í Kiev og á Vesturlöndum um slík áform séu ekki annað en blekkingar til að afsaka eigið ofríki og yfirgangsstefnu. Rússar vilja engin átök sagði Lavrov í Stokkhólmi.

Hvað sem öllum yfirlýsingum líður er hættuástand við landamæri Úkraínu.. Þessi árstími þegar frost er í jörðu er kjörinn til að senda skriðdreka og önnur þungavopn langar vegalengdir á ökrum og öðrum opnum svæðum á sléttum Úkraínu. Hættan er raunveruleg en áformin óljós.

Frá því að Pútin settist við völd árið 2000 hafa áform hans oft verið óljós en sagan sýnir að hann ræðst inn í Georgíu eða Úkraínu þegar hann telur það heppilegt fyrir sig.

Fyrir sjö árum ákvað Pútin eftir að hafa innlimað Krímskaga á ólögmætan hátt að setja innflutningsbann á matvæli til Rússlands til að auka sjálfbærni matvælaframleiðslu þar. Hann bannaði meðal annars innflutning á fiski og kjöti frá Íslandi. Hins vegar leyfir hann rússneskum sjávarútvegsfyrirtækjum að kaupa íslenskan hátæknibúnað.

Furðulega lífseigt er í umræðum hér að banni Pútins verði aflétt rjúfi Íslendingar samstöðu með bandamönnum sínum á úrslitastund. Slíkt samstöðurof yrði heimskulegasta skrefið við núverandi aðstæður.