Sóttin og sundfélagi
Sífelldar óljósar fréttir af bólusetningum bætast við allt annað sem sagt er og veldur ótta og kvíða hjá mörgum.
Þótt Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir heimilaði fyrir jól að opna sundstaði að nýju fór ég að ráðum Kára Stefánssonar þegar hann lýsti efasemdum um almenningssund. Þrátt fyrir allt uppnámið vegna mannamóta fyrir jóla og messuhalds í Kristkirkju um hátíðirnar virðist veiran ekki hafa náð sér á flug hér. Smitberar koma frá útlöndum og nú á að herða gæslu við landamærin samhliða auknu frelsi innan lands.
Ég tek undir með gömlum skólafélaga og jafnaldra á áttræðisaldri sem fann að því á Facebook að stöðugt birtust sprautur og stungur í handleggi í fréttatímum sjónvarps með raunasögum af bóluefninu. Við kaup á því var ekki sýnd nægileg fyrirhyggja á vegum Evrópusambandsins. Íslensk heilbrigðisyfirvöld ákváðu að binda trúss sitt við ESB og nú sitjum við í súpunni.
Ólafur Ó. Guðmundsson geðlæknir skrifar grein í Morgunblaðið í dag (9. janúar) og segir í lok hennar:
„Sá merki og á sínum tíma umdeildi frumkvöðull Guðmundur Björnsson landlæknir benti m.a. á þýðingu geðheilsunnar í smáriti sem gefið var út af Stjórnarráðinu í nóvemberlok 1918 þegar drepsóttin [spænska veikin] stóð sem hæst. „Gegndarlaus sótthræðsla er miklu háskalegri en flesta menn grunar, þeir sem æðrast og hleypa hræðslu og hugleysi í fólk eru allra manna óþarfastir og vinna miklu meira tjón en almennt er talið,“ og á eftir fylgdu ýmis sígild ráð um það hvernig fólk geti forðast inflúensuna og brugðist við ef það veikist. Þessi orð landlæknis eiga ekki síður vel við í dag, einni öld síðar.“
Ég geri orð þessara tveggja lækna að mínum. Sífelldar óljósar fréttir af bólusetningum bætast við allt annað sem sagt er og veldur ótta og kvíða hjá mörgum. Augljóst er að yfirvöld heilbrigðismála hér hafa ekkert sjálfstætt forræði á streymi bóluefnis til landsins. Að tala á annan veg veikir aðeins traust í garð þeirra. Það minnkar ekki kvíða margra að birta í sífellu stungumyndir með óljósum bóluefnisfréttum.
Þarna við anddyrið hittumst við Ragnar árum saman með öðrum árrisulum sundfélögum.
Aftur að sundi og félögunum þar. Í Morgunblaðinu í dag birtist tilkynning um að Ragnar Karlsson frá Siglufirði, fyrrv. forstöðumaður ráðstöfunardeildar eigna bandaríska varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, hefði andast 29. desember 2020 á Hrafnistu, Hraunvangi, Hafnarfirði og verið jarðaður í kyrrþey.
Ragnar var á níræðisaldri. Árum saman hittumst við fyrir allar aldir við húninn á Laugardalslauginni og hann sagði mér heimsmarkaðsverð á bensíni auk þess að greina frá hitastigi og veðurhorfum fyrir daginn. Kæmi hann ekki var ástæðan oftar en ekki að sláin í bílastæðakjallaranum í húsinu við Laugaveginn, þar sem Stjörnubíó var áður, stóð á sér. Ragnar lét sér ekki nægja að synda á morgnana í Laugardalslauginni heldur fór í Sundhöllina í hádeginu.
Fyrir nokkrum misserum tók sundferðum Ragnars að fækka. Hann hætti að keyra sjálfur, flutti og kom seinna en áður í strætisvagni þar var einnig annar sundfélagi sem er orðinn 100 ára.
Við glöddumst í hvert sinn sem við sáum ljúfmennið Ragnar og sjálfur naut hann þess greinilega að hafa krafta til að koma þótt þeir minnkuðu jafnt og þétt. Einn félaganna hafði á orði að líklega sæjum við hann næst í auglýsingu í Morgunblaðinu. Hann reyndist sannspár. Blessuð sé minning Ragnars Karlssonar.