Sósíalistar hafna Gunnari Smára
Enn einu sinni hraktist Gunnar Smári frá sköpunarverki sínu með lítilli þökk og enn minni virðingu fyrrverandi samstarfsfólks eða samherja.
Karl Héðinn Kristjánsson, fræðslu-og félagsmálafulltrúi hjá stéttarfélaginu Eflingu og formaður ungra Sósíalista, stofnaði fyrir nokkrum vikum til ágreinings við Gunnar Smára Egilsson, fráfarandi formann Sósíalistaflokksins, með ásökunum um ofríki og andlegt ofbeldi.
Átökum þeirra lauk á aðalfundi Sósíalistaflokksins laugardaginn 24. maí þar sem Karl Héðinn og um 20 manna hópur hans hafði fullan sigur og lagði undir sig valdastofnanir flokksins.
Enn einu sinni hraktist Gunnar Smári frá sköpunarverki sínu með lítilli þökk og enn minni virðingu fyrrverandi samstarfsfólks eða samherja.
Karl Héðinn Kristjánsson og Gunnar Smári Egilsson.Samsett (mynd/mbl.is/Eggert).
Gunnar Smári kom Sósíalistaflokknum á flot með Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, og Viðari Þorsteinssyni, forstöðumanni fræðslu- og félagsmálasviðs Eflingar. Það var sett á laggirnar þegar Viðar átti þann eina kost að hætta sem skrifstofustjóri stéttarfélagsins meðal annars vegna framkomu við fyrrverandi starfsfólk skrifstofunnar.
Þegar Sólveig Anna sagði sig úr Sósíalistaflokknum sagðist hún ekki geta tilheyrt hópi þar sem „stemmningin [væri] orðin svona yfirgengilega biluð“. Vísaði hún í umræðuþáttinn Syni Egils sem bræðurnir Sigurjón Magnús og Gunnar Smári sjá um á sjónvarpsstöð sem er afsprengi Sósíalistaflokksins, Samstöðinni. Í þættinum sakaði Hallgrímur Helgason rithöfundur Sólveigu Önnu um að tala eins og Donald Trump Bandaríkjaforseti. Sólveig Anna sagðist meðal annars vera orðin þreytt á „woke leiðindaþusi“.
Í röðum sósíalista urðu til að minnsta kosti tvær valdaklíkur, önnur tengd Eflingu og hin Gunnari Smára. Sat Gunnar Smári að fjárstyrk ríkisins til flokksins. Þótt flokkurinn hafi aldrei fengið þingmann kjörinn hefur hann í tvennum kosningum fengið meira en 2,5% atkvæða og þess vegna orðið styrkhæfur. Á tveimur kjörtímabilum nema ríkisstyrkirnir rúmlega 200 milljónum króna.
Karl Héðinn leyfði Sönnu Magdalenu, borgarfulltrúa flokksins, að sitja áfram sem pólitískur leiðtogi flokksins, eins og það er kallað, en lagði flokkskerfið að öðru leyti undir sig. Sanna Magdalena hefur hallað sér að Gunnari Smára og notið ráða hans í stóru og smáu. Gáfu fréttir eftir aðalfundinn til kynna að hún væri hugsi vegna stöðu sinnar.
Karl Héðinn boðar „grasrótarendurreisn flokksins“. Gunnar Smári og félagar hafi staðið í vegi fyrir henni „með andlýðræðislegum hætti“.
Fyrir fundinn birti grasrótarhópurinn yfirlýsingu um nýja starfshætti í flokknum og nauðsyn þess að „efla flokkinn sem fjöldahreyfingu verkafólks sem berst markvisst gegn auðvaldi og óréttlæti – með skýra sýn á sósíalíska framtíð og trú á mátt fjöldans.“
Í umræðum um flokkinn undanfarnar vikur hefur skýrst að undir merki hans hafa orðið til alls kyns félög eða sjóðir til að tryggja tök valdahópsins í flokknum. Óljóst er hvort sigur í kosningu á aðalfundi dugar til að komast inn í afkimana þar sem gullkistur flokksins eru geymdar í þágu útvaldra.
Líklega verður ekki fjallað mikið um fjárhagslega uppgjörið opinberlega.