13.11.2017 11:09

Sósíalískt uppgjör gagnvart VG

Uppgjörið ristir djúpt þegar tekist er á milli sósíalista innan og utan raða VG vegna hugsanlegs samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn.

Þegar litið er til þess að þingflokkur vinstri grænna (VG) lauk ekki mati sínu á stöðu flokksins í stjórnarmyndunarviðræðunum sunnudaginn 12. nóvember ber að minnast þess að þar sitja þingmenn sem löngum hafa talað lengst og oftast á alþingi.

Af fréttum af þingflokksfundinum að dæma sýnist ágreiningur innan flokksins að þessu sinni ekki vera á milli 101 VG og landsbyggðar VG, að minnsta kosti segist Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður úr Reykjavík suður, vilja að flokkurinn hefji formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Hann er sömu skoðunar og Katrín Jakobsdóttir, flokksformaður úr Reykjavík norður.

Laugardaginn 11. nóvember sagði Svavar Gestsson, fyrrv. ráðherra og sendiherra, á Facebook-síðu sinni:

„Katrín sýnir kjark að hefja viðræður við B og D. Hún er greinilega mikilhæfur stjórnmálaleiðtogi, það hefur margan grunað en sést best þessa daga þegar vegið er að persónu hennar. Því tekur hún með jafnaðargeði. Henni og flokknum er beinlínis skylt að kanna samstarf við B og D eftir að fjórflokkaviðræður bar upp á sker af því að B treysti sér ekki til að halda þeim áfram. Og eftir að S neitaði að láta reyna á viðræður við D. Árásirnar á Katrínu eru einkar ósanngjarnar en þær eru greinilega grimmastar frá einum og einum Samfylkingarmanni.“

Viðbrögðin við þessum orðum Svavars voru misjöfn en nokkrir gerðu athugasemd í þá veru að þeir minntust þess ekki að hafa séð þessar árásir á Katrínu sem Svavar nefnir. Hann benti þá á hvernig Össur Skarphéðinsson, fyrrv. formaður Samfylkingarinnar (á blómaskeiði hennar) skrifaði um Katrínu. Össur svaraði mánudaginn 13. nóvember: „Svavar er líklega búinn að gleyma því hvernig hann ól upp heila kynslóð á Þjóðviljanum undir möntrunni: "Allt nema íhaldið."“

Í bók um íslenska blaðamenn, Í hörðum slag, ræðir Guðrún Guðlaugsdóttir meðal annars við Úlfar Þormóðsson, blaðamann á Þjóðviljanum. Guðrún spyr hann: „Reynduð þið á Þjóðviljanum að gæta hlutleysis í fréttaskrifum?“ Úlfar svarar: „Nei, nei. Þessi hópur blaðamanna á Þjóðviljanum var mestmegnis sósíalistar. Við höfðum sósíalíska sýn á samfélagið. Við skrifuðum út frá okkar sýn.“

Nú er tekist enn einu sinni á um það í þessum hópi fólks hvort starfa eigi með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn. Svavar Gestsson sat í ríkisstjórn undir forsæti Sjálfstæðismannsins Gunnars Thoroddsens frá 1980 til 1983 af því að Svavar taldi sig þá eygja tækifæri til að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn.

Vinir Össurar koma honum nú til aðstoðar vegna gagnrýni Svavars. Einn þeirra, Sverrir Hjaltason, segir:

„Tilvitnun í Svavar úr 1. hefti Réttar 1989. ,,Stundum finnst mér reyndar að baráttan fyrir sósíalismanum fari aðallega fram á stöðum eins og þarna niðri í Afríku eða í Nicaragua en þangað ætla ég að fara og berjast með félögunum strax og ég hef tíma til.““

Af þessu má ráða að uppgjörið ristir djúpt þegar tekist er á milli sósíalista innan og utan raða VG. Aðrir reyna að ýta þessum gamalgróna ágreiningi til hliðar. Í samtali við Kolbein Óttarsson Proppé á mbl.is segir:

„Kolbeinn segir að þrennt komi til sem móti afstöðu hans til málsins [stjórnarmyndunar]. Í fyrsta lagi hafi flokkurinn samþykkt stjórnmálaályktun landsfundar sem kveðið hafi á um að flokkurinn vildi leiða ríkisstjórn. Í öðru lagi hafi því margsinnis verið lýst yfir að málefnin ættu að ráða för við myndun nýrrar ríkisstjórnar. Þriðja ástæðan fyrir afstöðu Kolbeins er að flokkurinn hafi sagt með mjög skýrum hætti fyrir kosningar að flokkurinn myndi ekki útiloka neinn fyrirfram.“

Í raun snýst þetta allt um hvort VG sé í raun stjórnhæfur flokkur eða ekki. Deilurnar nú veita sýn á það, þær kunna að fæla annarra flokka menn frá hugmyndinni um stjórnarsamstarf við hann.