Sósíalískir píratar
Reynslan af stjórnarháttum sósíalistanna í Eflingu er allt önnur en Birgitta lýsir í draumsýn sinni. Nú setur sósíalískur valdboðstónn þeirra svip sinn á allt starf í ASÍ-húsinu
„Rothögg fyrir pírata, happafengur fyrir nýjan tilvonandi flokk á þingi,“ sagði einn félaga í Sósíalistaflokki Íslands í athugasemd á FB-síðu Birgittu Jónsdóttur, fyrrv. leiðtoga Pírata, þegar hún tilkynnti í dag. 3. ágúst 2021, að hún gengi til liðs við Sósíalistaflokkinn, ekki til þess að gefa kost á sér núna til þingsetu í aðdraganda kosninga heldur „til að taka þátt í móta framtíðina með fólki sem hefur hugrekki til að hugsa út fyrir ramman“. Hún segir einnig: „Ég er heilluð af hugmyndafræðinni og tilrauninni um dreift vald, sköpunarkraftinum og framtíðarsýninni...“
Þessi orð Birgittu um hugmyndafræðina og dreift vald í anda hennar vekur spurningu um hvort hún átti sig í raun á eðli sósíalistaflokka og stjórnarhátta þeirra. Sósíalísk flokkssystkini hennar, Sólveig Anna Jónsdóttir og Viðar Þorsteinsson, komust til valda í Eflingu stéttarfélagi. Að segja þau hafa stjórnað því í anda valddreifingar og til að virkja sköpunarkraft annarra stenst ekki. Þau hröktu starfsmenn félagsins af skrifstofu þess til að ná þar fullum yfirráðum. Síðan hafa þau fjölgað mjög í starfsliði félagsins með stórfelldum nýjum útgjöldum. Þau kölluðu til aðgerðasinna frá Kanada til að hafa forystu í verkfallsaðgerðum en hann hrökklaðist á brott vegna þess hve miklar hömlur voru settar á sköpunarkraft hans.
Reynslan af stjórnarháttum sósíalistanna í Eflingu er allt önnur en Birgitta lýsir í draumsýn sinni. Nú setur sósíalískur valdboðstónn þeirra svip sinn á allt starf í ASÍ-húsinu. Til að þóknast sósíalistunum hefur Drífa Snædal, forseti ASÍ, málað sig út í horn með furðulegum yfirlýsingum og óvild í garð stjórnenda fyrirtækja á borð við nýja flugfélagið Play sem þúsundir almennra borgara studdu með hlutabréfakaupum.
Flokksystkinin Birgitta Jónsdóttir og Þór Saari á góðri stundu (mynd: mbl.is).
Yfirlýsing Birgittu um hollustu hennar við sósíalismann birtist eftir að skýrt var frá því að Þór Saari, gamall þingflokksbróðir hennar, skipaði annað sætið á lista sósíalista í SV-kjördæmi. Þegar Þór Saari sat á þingi stóð hann varla upp í þingsalnum án þess að hallmæla alþingi og starfsháttum þar. Var þetta í raun allt mesta sorgarsaga því að árið 2016 lenti hann í 11. sæti í prófkjöri meðal Pírata. Síðar skrifaði hann marklitla bók um reynslu sína.
Þau Birgitta og Þór gengu til liðs við Jóhönnu Sigurðardóttur og stjórn hennar á árinu 2012 og tryggðu henni líf út kjörtímabilið vorið 2013. Allt var það gert í anda ógagnsæis og hrossakaupa til dæmis í stjórnarskrármálinu sem skilaði engu að lokum því að nýir flokksformenn Samfylkingar og VG snemma árs 2013 sáu að í samvinnu við Birgittu og Þór Saari hafði Jóhanna leitt stjórnarskrármálið í hreinar ógöngur.
Birgitta og Þór Saari gátu ekki stutt stjórn Jóhönnu án þess að leggja blessun sína yfir ESB-aðildarumsókn hennar. Það var þó gert á sama hátt og allt annað með því að slá úr og í. Þegar rætt var um skýrslu utanríkisráðherra á alþingi 26. apríl 2012 sagði Þór Saari „alvitlausasta“ sem Íslendingar gætu gert á þeirri stundu væri að hætta aðildarviðræðum við ESB „í miðju kafi án þess að klára þær“. Hann sagðist ekki vita hvaða afstöðu hann hefði sjálfur til ESB-aðildar!