21.3.2019 9:19

Sósíalíska fjórmenningaklíkan gegn samningum

Af orðum Guðbrands má ráða að það hafi ekki verið hagsmunir umbjóðenda hans og samningamanna VR sem hafi ráðið ferðinni að lokum heldur vilji Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, um að segja sig ekki frá fjórmenningaklíkunni.

Guðbrandur Einarsson, sem í gær (20. mars) sagði af sér sem formaður Landssambands íslenskra verslunarmanna, segir í Morgunblaðinu í dag:

„Við erum búin að vera að vinna að því að landa kjarasamningi í margar, margar vikur og töldum okkur vera að ná árangri í því í síðustu viku. Mér fannst vera kominn ágætur grunnur að því að við gætum haldið áfram og klárað enda sá ég í þessu ýmsan ábata fyrir verslunarmenn. Bæði raunverulega vinnutímastyttingu og síðan voru vinnuveitendur tilbúnir að hækka launatöflur verulega. Svo gerðist það í síðustu viku að umræða um framhaldið var bara stöðvuð.

Ég hafði verið með fulltrúa frá VR [Verslunarmannafélags Reykjavíkur] í þessum viðræðum en þeir drógu sig út úr þeim. Þeir sögðust ekki geta haldið áfram viðræðunum þrátt fyrir að við værum í raun og veru sammála um að það væru góðir hlutir að gerast. Ég gat ekki haldið áfram að gera samning fyrir örfáa verslunarmenn. Slíkur samningur þarf að ganga yfir alla línuna ef hann á að virka. Þar með var mitt umboð farið.“

Af orðum Guðbrands má ráða að það hafi ekki verið hagsmunir umbjóðenda hans og samningamanna VR sem hafi ráðið ferðinni að lokum heldur vilji Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, um að segja sig ekki frá fjórmenningaklíkunni.

001Myndin birtist í Morgunblaðinu og er Guðbrandur Einarsson lengst til vinstri á henni.

Telurðu þá að átök hafi alltaf verið markmiðið, að alltaf hafi verið stefnt að verkföllum? spyr Höskuldur Daði Magnússon og Guðbrandur svarar:

„Við getum spurt okkur þeirrar spurningar, ég veit ekki hvert svarið er. En það vöknuðu spurningar þegar maður sá í fjölmiðlum að kröfugerð Starfsgreinasambandsins væri orðin stefna Sósíalistaflokksins. Maður spyr sig um stöðu [Sólveigar Önnu] formanns Eflingar í samningaviðræðum, getur hún eitthvað fallið frá stefnu Sósíalistaflokksins?“

Í 21 ár hefur Guðbrandur verið formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja (VS) og setið í 20 á í stjórn Landssambands ísl. verslunarmanna, þar af 6 ár sem formaður. Hann segist ekki áður hafa kynnst vinnubrögðum af þessu tagi við gerð kjarasamninga og kveður VS 1. apríl.

Þetta ber allt að sama brunni og hér hefur áður verið lýst: fjórmenningaklíkan hefur undirtökin innan verkalýðshreyfingarinnar. Fyrir henni vakir ekki að semja heldur sýna vald sitt. Valdbeitingin birtist á öllum sviðum, nú síðast gagnvart Guðbrandi Einarssyni. Að barist sé fyrir bættum kjörum launþega er aðeins yfirvarp.