4.1.2024 10:43

Sorpflokkun hækkar gjaldskrá

Svar Heiðu Bjargar er enn ein aðferðin við að skjóta sér undan ákvörðun um lækkun. Hvað er það við flokkunina sem veldur svona mikilli gjaldskrárhækkun?

Fjármál Reykjavíkur eru í molum þegar Dagur B. Eggertsson skilur við borgarstjórastólinn. Í þættinum Dagmálum á mbl.is var rætt við lögmanninn Sigurð G. Guðjónsson, umboðsmann Ólafs Ragnars Grímssonar í forsetakjörinu 1996, um forsetakosningarnar núna og hugsanlega frambjóðendur.

Nafn Dags B. bar á góma og Sigurður G. sagði:

„Ég held að Dagur eigi kannski ekki breik í þetta embætti þegar hann er að skila af sér borginni gjaldþrota [...] Hann hefur ekki unnið neinar kosningar hingað til, það hafa alltaf einhverjir bjargað honum.“ (Mbl.is 3. jan.)

Þetta er harkalegri dómur en nokkur stjórnmálamaður hefur fellt um Dag B. sem borgarstjóra svo ekki sé minnst á fjölmiðlamenn sem jafnan taka hann silkihönskum.

Flokkssystir Dags B. sem staðið hefur að baki honum við stjórn borgarinnar á vegferðinni til „gjaldþrots“ er Heiða Björg Hilmisdóttir, núv. formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og fyrrverandi varaformaður Samfylkingarinnar.

Aðilar vinnumarkaðarins beina því nú til sveitarfélaganna að halda aftur af gjaldskrárhækkunum og draga þær til baka til að greiða fyrir kjarasamningum. Framsóknarmaðurinn Einar Þorsteinsson, verðandi borgarstjóri, aftekur ekki að verða við þeim óskum án þess þó að útfæra það nánar.

Screenshot-2024-01-04-at-10.39.41

Þessi mynd birtist á forsíðu Morgunblaðsins 3. janúar 2024. Hún er dæmigerð fyrir ófremdarástandið í sorphirðunni.

Heiða Björg Hilmisdóttir sagði á Vísi 3. janúar að sveitarfélögin hefðu reynt að halda aftur af sér hvað varðar verðhækkanir á þessu ári. Þau vildu líka taka meiri þátt í samtalinu þegar kemur að launahækkunum.

Í fréttinni segir að mikið hafi verið rætt um miklar hækkanir hjá bæði Sorpu og Strætó en gjöld þar hækki um ellefu og tólf prósent. Heiða segir að henni finnist það afleitt að þurfa að hækka gjöldin hjá Strætó svo mikið og að hún væri til í að finna einhverja aðra leið. Um Sorpu segir hún:

„En varðandi Sorpu þá eru það einfaldlega lög sem hafa verið sett með aukinni flokkun og aðeins meira flækjustigi. Við þurfum að vera duglegri að flokka, þá lækkar þetta aftur.“

Þetta er dæmigert samfylkingarsvar um erfið fjármál, þau eru öðrum að kenna. Í svarinu kemur hins vegar einnig fram að kostnaðurinn ræðst ekki af lögunum heldur framkvæmd þeirra.

Af hálfu talsmanna Sorpu er sagt að allt ráðist af því að rétt sé flokkað. Hver trúir að þeim verði umbunað með lægri gjöldum sem eru duglegir við að flokka? Svar Heiðu Bjargar er enn ein aðferðin við að skjóta sér undan ákvörðun um lækkun. Hvað er það við flokkunina sem veldur svona mikilli gjaldskrárhækkun?

Flækjustigið er sveitarfélaganna en borgararnir greiða kostnaðinn. Verkefni við sorphirðu hafa verið flutt inn á heimilin og gjöldin á heimilin hafa hækkað. Tunnur og gámar fyllast. Sé vitlaust flokkað er refsingin skýr, tunnurnar eru ekki teknar. Það sem áður var talin eðlileg þjónusta hefur breyst í „refsiverðan“ verknað borgarbúa og nú í svipu af hálfu sveitarfélaga til að geta lækkað gjaldtöku vegna kjarasamninga.