5.10.2019 11:16

Sópað undir teppi vegna bragga og Sorpu

Miðað við stjórnlausan fjáraustur í viðgerð á bragganum sem náði hámarki með kaupum á dýrum puntstráum frá Danmörku kemur úr hörðustu átt að bera þá sökum sem vöktu máls á óráðsíunni.

Á vefsíðunni Hringbraut var mánudaginn 30. september 2019 skýrt frá því að sá sem tók borgar-braggann dýra í Nauthólsvík á leigu, Daði Agnarsson, og rak þar veitingastaðinn Bragginn Bar & Bistro hefði lokað. Bragginn stæði ónotaður.

Frétt birtist á mbl.is þriðjudaginn 1. október 2019 um að NH100 ætlaði að standa að rekstri í bragganum. NH100 er í eigu sömu aðila og hafa séð um rekstur á Nauthóli og matsölunni Málinu innan Háskólans í Reykjavík. Þetta staðfesti Eiríkur Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Háskólans í Reykjavík, í samtali við mbl.is. Vonaðist Eiríkur til þess að gestir gætu að nýju fengið sér að borða á staðnum eftir viku, það er nú eftir helgina.

IMG_7207Puntstráin við braggann í Nauthólsvík urðu punkturinn yfir i-ið.

Háskólinn í Reykjavík leigir braggann af Reykjavíkurborg fyrir 694 þúsund krónur á mánuði eða 8,3 milljónir á ári, sem þýðir að mati Hringbrautar að það taki að minnsta kosti hálfa öld til að greiða upp húsnæðið. Upphæðin er án vaxtagjalda.

Á Facebook sakaði Daði Agnarsson borgarfulltrúa um að koma óorði á braggann. Hann sagði:

„Óvægin umræða um vinnustaðinn þeirra [18 manns í bragganum] hefur gert það að verkum að þau þurfa að fara að afsaka staðinn, sinn eigin vinnustað. Þetta er fólk sem þarf að svara fyrir mistök annarra, svara fyrir óábyrga umræðu stjórnmálamanna.“

Miðað við stjórnlausan fjáraustur í viðgerð á bragganum sem náði hámarki með kaupum á dýrum puntstráum frá Danmörku kemur úr hörðustu átt að bera þá sökum sem vöktu máls á óráðsíunni. Eftir að það var gert sáu allir í hvert óefni var komið og það hefði verið hreint ábyrgðarleysi að ræða ekki málið til þrautar. Af hálfu ráðandi afla innan stjórnkerfis Reykjavíkurborgar var allt gert til að sópa hneykslinu undir teppið.

Því miður er þetta braggamál aðeins eitt af mörgum dæmum um lélega fjármálastjórn á vegum borgarinnar eða undir handarjaðri hennar. Að gefa þá skýringu að lagt sé af stað með rangar áætlanir til að fá stjórnmálamenn til að bíta á öngulinn er aðeins vitnisburður um forkastanlegt hugarfar og vinnubrögð. Þannig var þó staðið að ákvörðunum um endurnýjun braggans.

Skemmst er að minnast þess að á dögunum var innri endurskoðun Reykjavíkurborgar falið að kanna hvort gerð hefðu verið alvarleg mistök við áætlanagerð og fjárstýringu Sorpu eftir að í ljós kom, að því er virðist stjórn og stjórnendum að óvörum, 1,4 milljarða króna gat í fjárfestingaráætlun félagsins. Um er að ræða framúrkeyrsla við byggingu á gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi sem og vegna kostnaðar við tækjabúnað í stækkaða sorpmóttökustöð í Gufunesi.

Varla þarf sérfróða menn til að kanna hvort um „alvarleg mistök“ hafi verið að ræða. Sé það ekki sjálfkrafa talið „alvarlegt“ að farið sé með fjármuni á þennan hátt ber það vott um óeðlilegt þanþol þeirra sem ábyrgðina bera á því að vel sé farið með skattfé almennings. Þurfi þeir að bíða eftir áliti endurskoðenda til að komast að niðurstöðu um alvarleika málsins ber það vott um að sömu aðferð eigi að beita og í braggamálinu: að sópa undir teppið.