Söngvakeppni ekki milliríkjamál
Nú vill sjálfur menningarmálaráðherrann að utanríkisráðherra taki ákvörðun um hvort fulltrúi Íslands taki þátt í söngvakeppni Evrópu, Eurovision, í Malmø í maí.
Það gerist reglulega að þeir sem sitja í utanríkismálanefnd alþingis kvarta undan því að utanríkisráðherra hafi ekki nægilegt samráð við þá áður en ákvörðun ráðherrans er kynnt. Stundum er um hreinan fyrirslátt af hálfu nefndarmanna að ræða í þeim tilgangi að komast í fjölmiðla.
Sjaldan hefur tilefni slíkrar kvörtunar verið jafnlítið og að þessu sinni þegar utanríkisráðherra ákveður að frysta 110 m. króna greiðslu til UNRWA, Flóttamannastofnunar SÞ fyrir Palestínu, á meðan komist er til botns í stuðningi starfsmanna stofnunarinnar við Hamas-hryðjuverkahópinn þegar hann framdi ódæðisverkin í Ísrael 7. október 2023.
Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti upphlaupi þingmanna vegna þessa máls sem „stormi í vatnsglasi“ í Kastljósi ríkissjónvarpsins 29. janúar. Þar var málið lagt upp að hætti fréttastofunnar og lét stjórnandi meðal annars í veðri vaka að vafi væri um Hamas-aðild starfsmanna UNRWA. Stjórnendur UNRWA ráku þó 12 starfsmenn 26. janúar fyrir þessar sakir.
Nú vill sjálfur menningarmálaráðherrann að utanríkisráðherra taki ákvörðun um hvort fulltrúi Íslands taki þátt í söngvakeppni Evrópu, Eurovision, í Malmø í maí. Þetta er frumleg hugmynd og kallaði ef til vill á sérstakt samráð við utanríkismálanefnd yrði tekið mark á henni – sem telja verður ólíklegt.
Í dag (30. janúar) er skýrt frá því að 1005 sænskir listamenn hvetji EBU, sem á síðasta orðið um Eurovision, og SVT, sænska ríkissjónvarpið, til að útiloka Ísrael frá þátttöku í keppninni í Malmø vegna stríðsins á Gaza. Rússum hefði verið haldið frá keppninni vegna Úkraínustríðsins og Belarús árið 2021 þar sem ríkið hefði brotið gegn reglum EBU um fjölmiðlafrelsi. Þess er vænst að EBU og SVT verði sjálfum sér samkvæm í afstöðu gagnvart þeim ríkjum sem brjóta gegn lýðræðislegum gildum og mannréttindum.
Í sænskum fréttum af mótmælunum segir að í Finnlandi hvetji 1.300 tónlistarmenn finnska ríkisútvarpið Yle til þess að þrýsta á skipuleggjendur Eurovision eða taka ekki þátt í keppninni í Malmø. Á Íslandi hafi ekki verið ákveðið hvort senda eigi keppanda til þátttöku. Hvernig staðið verður að því að raða Íslandi á keppniskvöld er óljóst.
Þá kemur einnig fram að hvað sem þessari gagnrýni líði hafi EBU sagt að ekki sé á dagskrá að útiloka Ísrael. Eurovision söngvakeppnin sé á vegum almannaútvarpsstöðva en ekki ríkja. SVT svarar gagnrýni listamannanna með því að vísa á EBU sem ákveði hverjir taki þátt í keppninni og SVT virði þá ákvörðun.
Þarna kemur skýrt fram að það eru útvarpsstöðvar en ekki ríki sem taka ákvarðanir um þátttöku í þessari keppni. Hér er látið annars vegar látið eins og ákvörðunin sé á valdi þess sem sigrar í keppninni á heimavelli og hins vegar hjá utanríkisráðherra. Hvorugt er rétt: það er yfirstjórn ríkisútvarpsins sem á síðasta orðið um þetta. Hún steig fyrsta skrefið með kynningu á þátttakendim í keppninni laugardaginn 27. janúar.
Sendiherra Ísraels í Stokkhólmi sagði í tilefni af áskorun sænsku listamannanna: Verði orðið við þessum tilmælum er það gjöf til hryðjuverkamannanna í Hamas.