21.5.2020 11:28

Sókndjarfur seðlabankastjóri

Um árabil hafa verið háværar kvartanir á hendur stjórnmálamönnum og seðlabanka fyrir of háa stýrivexti. Ákvörðunin nú um lækkun stýrivaxta markar kaflaskil í vaxtasöngnum.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri gerði glögga grein fyrir stöðu þjóðarbúsins og afstöðu bankans í Kastljósi ríkissjónvarpsins að kvöldi miðvikudags 20. maí, sama dag og tilkynnt var að meginvextir bankans hefðu verið lækkaðir um 0,75%. Hafa stýrivextir bankans nú lækkað um 2% á árinu og hafa aldrei verið lægri, 1%.

Þegar Einar Þorsteinsson spurði Ásgeir hvort kaup seðlabankans á ríkisskuldabréfum fyrir allt að 150 milljarða króna væri ekki seðlaprentun svaraði bankastjórinn hiklaust játandi. Þetta var traustvekjandi því að oft er slíkt inngrip af hálfu seðlabanka falið fyrir venjulegum sjónvarpsáhorfanda með tæknilegu orðalagi (t.d. enska: Quantitative easing, QE). Galdurinn er að seðlaprentunin leiði ekki til verðbólgu, taldi Ásgeir ekki hættu á því. Krónan væri stöðug og hefði náð nýju jafnvægi.

Sedlabankinnn_asgeir_jonsson-1Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri (Mynd: Seðlabankinn.)

Stefán Einar Stefánsson, viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins, birtir opnuviðtal við Ásgeir seðlabankastjóra í dag (21. maí) og þar hnykkir Ásgeir á að lækkun gengis um 10 til 12% valdi ekki honum ekki heldur ótta um verðbólgu, hún hafi verið mjög lág í upphafi COVID-19-faraldursins verðlækkanir á olíu og erlendum aðföngum vegi á móti gengislækkuninni. Lægra gengi styrki stöðu ferðaþjónustu, örvi útflutning og skapi ný störf um leið og sóttvarnaraðgerðum sleppi.

Í viðtalinu gagnrýnir Ásgeir viðskiptabankana fyrir vaxtamun þeirra, hann sé of hár, vaxtalækkanir seðlabankans í mars hafi til til dæmis ekki skilað sér í lækkun útlánsvaxta banka. Hugað verði að leiðum til að knýja viðskiptabankana til að lækka vaxtamuninn. Þá verði lífeyrissjóðirnir að miðla vaxtalækkunum áfram. Þessar lánastofnanir ráða mestu um hvernig heimilin og fyrirtæki njóti vaxtalækkunar seðlabankans.

Um árabil hafa verið háværar kvartanir á hendur stjórnmálamönnum og seðlabanka fyrir of háa stýrivexti. Ákvörðunin nú um lækkun stýrivaxta markar kaflaskil í vaxtasöngnum.

Ásgeir er raunsær þegar hann ræðir stöðu fjármálaráðherra gagnvart þrýstihópum „þegar ríkið lætur of snemma undan þrýstingi er hætt við að vandinn verði allur settur á herðar þess sem getur ekki gengið upp,“ segir hann og bætir við: „Ríkisvaldið hefur komið inn með mjög mikilvægar aðgerðir - svo sem hlutabótaleiðina. Það virðist hins vegar hafa gerst án þess að verkalýðsfélögin tækju að öllu leyti ábyrgð á ástandinu og því mikla atvinnuleysi sem nú hefur skapast.“

Með þessari afstöðu skipar forysta ASÍ sér á jaðarinn í stað þess að vera þátttakandi í lausninni. Þetta birtist meðal annars í orðum forseta ASÍ um kjaradeilu flugfreyja við Icelandair og verður aðeins til þess að farið verður fram hjá ASÍ-forystunni við lausn brýnna mála.

Undir lok samtalsins segir Ásgeir Jónsson:

„Ferðaþjónustan verður ekki söm og það er ekki endilega eftirsóknarvert að hún verði það. Hún var leiðandi í hagvextinum síðustu sjö árin en við eigum ekki að gera ráð fyrir að hún verði það með sama hætti hér eftir. Við verðum áfram ferðaþjónustuland en með öðru móti. [...] Staða ferðaþjónustunnar nú er ekki ósvipuð og sjávarútvegurinn lenti í í kringum 1988 þegar mikill samdráttur varð á aflaheimildum. Það var mjög erfitt tímabil fyrir greinina og kallaði á uppstokkun og hagræðingu. En upp úr því fengum við þennan gríðarlega öfluga atvinnuveg sem við þekkjum í dag.“

Seðlabankastjóri segir einnig:

„Ég held að við eigum að nýta þetta tækifæri til þess að hugsa um nýja hluti, sem ekki byggi með sama hætti á auðlindum landsins og stóru útflutningsgreinarnar þrjár gera. Frumkvöðlar munu núna spretta fram og finna nýjar lausnir og skapa ný verðmæti.“

Undir þetta skal tekið og minnt á stórhuga stefnu sem ríkisstjórnin hefur hrundið í framkvæmd með áherslu á nýjar greinar, rannsóknir og þróun. Það er tímabært að skapað verði nýtt svigrúm í atvinnulífinu eins og gert var með aðildinni að evrópska efnahagssvæðinu (EES) fyrir aldarfjórðungi.