23.2.2022 10:09

Sökin er Pútins ekki NATO eða ESB

Pútin hóf síðara kalda stríðið og spurningin snýst um hvort Úkraína öll lendir vestan eða austan við nýja járntjaldið sem hann vill draga í álfunni.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti braut alþjóðalög með því að viðurkenna „alþýðulýðveldin“ tvö í austurhluta Úkraínu. Hve langt til vesturs hann sendir herafla sinn kemur í ljós. Loftárásir Rússa í Sýrlandi á sjúkrahús og almenna borgara vekja ótta meðal íbúa Úkraínu.

Undarleg ræða Pútins eftir fund í öryggisráði Rússa mánudaginn 21. febrúar batt enda á 30 ára tímabil í sögu Evrópu þar sem litið var til kalda stríðsins sem óæskilegrar fyrirmyndar vegna spennu í samskiptum austur og vestur hluta álfunnar. Pútin hóf síðara kalda stríðið og spurningin snýst um hvort Úkraína öll lendir vestan eða austan við nýja járntjaldið sem hann vill draga í álfunni.

Atburðirnir í Úkraínu eru þess eðlis að enginn íslenskur fjölmiðill hefur burði til að ná utan um þá. Meira að segja ríkisútvarpið (RÚV) með alla sína milljarða er eins og afdalastöð í efnistökum sínum. Samanburðurinn er mjög óhagstæður og hvorki fámenni né aðstöðuleysi að afsaka hann. Má þar til dæmis að benda á efnistökin í fréttatíma danska ríkissjónvarpsins DR1 að kvöldi 22. febrúar annars vegar og íslenska ríkisútvarpsins hins vegar. Himinn og haf skildi að framsetningu íslenskra og danskra frétta- og fræðimanna.

Putin_invades_ukraine_4010205Fréttamaður RÚV vék að því í samtali við utanríkisráðherra í Kastljósi, hvort ekki væri skiljanlegt að Pútin teldi sér ógnað af NATO. Ráðherrann benti á hve fáránleg þessi spurning er. NATO væri varnarbandalag og legði ekki á ráðin um árás á nokkra þjóð.

Í Fréttablaðinu í dag tekur Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor í alþjóðaviðskiptum og hagfræði við Háskólann á Akureyri, að sér að afsaka löglausa framgöngu Pútins með því að lýsa ábyrgðinni á hendur Vesturlöndum, NATO og ESB. Prófessorinn lætur eins og aðrir en Úkraínumenn eða stjórn þeirra hafi áhuga á aðild að NATO eða ESB.

Árið 2008 reyndi á þetta á leiðtogafundi NATO, þá var aðildarumsókn ekki samþykkt en dyrnar skildar eftir opnar ef Georgíumenn og Úkraínumenn sýndu áhuga síðar. Að túlka þessa afstöðu sem ögrun við Rússland og leggja hana að jöfnu við „ að Kanada eða Mexíkó gengju í varnarbandalag með Kína eða Rússlandi,“ eins og prófessorinn segir, sýnir aðeins hve langt má ganga til afsökunar fyrir Pútin. Samanburðurinn er út fyrir öll skynsamleg mörk í ljósi atburðanna í Úkraínu.

Stjórnarskipti urðu í Úkraínu 2014 eftir mótmæli síðla árs 2013 gegn forseta, hollum Rússum, sem vildi ekki hlýða á kröfur mótmælenda um viðræður og samning við ESB.

Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sagði 22. febrúar „tímabært“ fyrir ESB að tryggja Úkraínu aðild að sambandinu. Hann sagðist hafa hvatt ESB um að ýta öllu hiki og efasemdum til hliðar og lofa Úkraínumönnum aðild. Í því fælist besta strategíska ákvörðunin fyrir ESB.

Hilmar Þór telur það „óheiðarleika“ gagnvart Úkraínumönnum taki ESB vel í aðildaróskir þeirra. Hann vill að Pútin ráði en ekki Úkraínumenn hvort þeir gangi í NATO. Söguskýringar prófessorsins til að milda ofbeldi og yfirgang Pútins dæma sig sjálfar.