26.3.2023 12:49

Söguþekking minnkar

Að þekkja hvorki eigin sögu né annarra þrengir sjónarhornið til mikilla muna og er í raun í algjörri andstöðu við alþjóðavæðinguna.

Oft má lesa gagnrýni á sögukennsluna í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Hún hafi verið til þess fallin að hvetja til andstöðu við erlent vald og einkum Dani. Þá var því líklega komið inn hjá mörgum að Ísland hafi verið eins og hver önnur nýlenda Dana þótt hvorki Danir né forystumenn Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni hafi talið svo vera.

Nú fær kvikmyndin Volaða land góða dóma hér og í Danmörku þar sem Ingvar E. Sigurðsson hlaut í gærkvöldi (25. mars) Bodil-verðlaunin, elstu og virðulegustu kvikmyndaverðlaun Dana. Þegar rætt var myndina á dögunum í Lestinni á rás 1 þvældist það dálítið fyrir þeim sem þar töluðu hvort Ísland hafi verið nýlenda eða ekki. Þannig að lengi lifir í þeim glæðum.

Hvort þar sé um skort á sögukunnáttu að ræða eða tilfinningu sem skýtur rótum meðal ungs fólks hér á landi vegna umræðna í öðrum löndum um að afmá tákn nýlendutímans skalt ósagt látið.

758EBFD480E273FEB05A125716891F0C9804A2C1D493AE727D01EF711538D9BC_713x01944 réttir Sláturfélags Suðurlands (mynd: visir.is)

Á visir.is er hins vegar sagt frá því í dag 26. mars að Sláturfélag Suðurlands hafi á undanförnum vikum kynnt til sögunnar nýtt útlit á 1944-skyndiréttunum og samhliða breytingunum hætt við notast við slagorð réttanna – „Matur fyrir sjálfstæða Íslendinga“. Steinþór Skúlason, forstjóri SS, segir að sífellt færri skilji vísun slagorðsins til ártalsins – það er réttirnir dragi nafn sitt af ártalinu 1944 þegar Íslendingar lýstu yfir sjálfstæði frá Danmörku. Veltir forstjórinn því fyrir sér að minnkandi skilningur „segi kannski eitthvað til um sögukennslu nú til dags“.

Varla er því sleppt í sögukennslu, sé hún yfirleitt í boði, að Ísland hafi orðið lýðveldi og sjálfstætt ríki árið 1944. Hins vegar hefur eðli sögukennslu tekið á sig nýja mynd og á hún mjög undir högg að sækja.

Sögukennsla í grunn- og framhaldsskólum berst fyrir lífi sínu, sagði Súsanna Margrét Gestsdóttir, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands við ríkisútvarpið 2. mars 2023. Mjög hafi þrengt að sögukennslu, einkum með styttingu framhaldsskólans í þrjú ár.

Í grunnskóla rennur saga inn í samfélagsgreinar sem eru saga, landafræði, þjóðfélagsfræði, lífsleikni, trúarbragðafræði og er þá ekki allt talið. Í framhaldsskólum var saga lengst af meðal kjarnagreina en er ekki eftir að framhaldsskólinn varð þrjú ár.

Að þekkja hvorki eigin sögu né annarra þrengir sjónarhornið til mikilla muna og er í raun í algjörri andstöðu við alþjóðavæðinguna en hjálpar kannski einhverjum að standa af sér breytingar vegna hennar, af því að hann þekkir ekkert annað en litlu þúfuna sína án fortíðar.

Nýlega var löng og ítarleg spurning í keppni framhaldsskólanema í ríkissjónvarpinu, Gettu betur, um fyrirbrigði á síðari hluta 20. aldarinnar sem var hávært og fór ekki fram hjá neinum. Hvorugt keppnisliðið þekkti fyrirbrigðið: Keflavíkurgönguna. Það hlýtur að hafa komið mörgum gömlum sögukennurum á óvart eins og þeim sem fylgdust með þjóðmálum á þeim tíma.