24.3.2025 12:05

Sögustund fyrir borgarstjóra

Samfylkingin hélt að Landsvirkjun yrði fjárhagslega vanmáttug vegna Kárahnjúkavirkjunar og borgin myndi axla skuldir vegna þess.  Best væri að selja hlut borgarinnar.

Undir lok árs 2002 voru mikil átök innan Samfylkingarinnar um hvort flokkurinn ætti að styðja virkjun við Kárahnjúka eða ekki. Þingflokkurinn ákvað undir forystu Össurar Skarphéðinssonar að styðja virkjunina. Borgarstjórnarflokkurinn undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra klofnaði. Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi og formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, gekk í lið með þeim innan R-listans sem lögðust gegn virkjuninni.

Afstaða borgarstjórnar skipti máli vegna þess að á þeim tíma átti Reykjavíkurborg tæplega 45% hlut í Landsvirkjun sem stóð fyrir virkjunarframkvæmdunum. Aldrei var þó nein spurning um vilja meirihluta borgarstjórnar því að sjálfstæðismenn þar studdu virkjunina.

Ingibjörg Sólrún reyndi að bera klæði á vopnin innan eigin raða. Í framsöguræðu í borgarstjórn fyrir fjárhagsáætlun árið 2003 sagði hún m.a.:

„Hins vegar eru framkvæmdirnar [á vegum Landsvirkjunar] iðulega mjög umdeildar og það er erfið staða fyrir borgaryfirvöld að bera sem eigandi fyrirtækisins ábyrgð á virkjanaframkvæmdum í öðrum landshlutum, framkvæmdum sem jafnvel er sterk pólitísk andstaða við í borgarstjórn Reykjavíkur. Ég held að það sé tímabært fyrir ríki og borg að ræða það af fullri alvöru að ríkið kaupi hlut sveitarfélaganna í fyrirtækinu. Virðist mér að betri tími geti varla gefist til slíkra samninga en nú, þegar ríkið hefur selt hlut sinn í ríkisbönkunum og hefur handbæra fjármuni.“


IMG_1894

Sérstök nefnd um orkustefnu Reykjavíkurborgar komst síðan árið 2004 að þeirri niðurstöðu að rétt væri að selja hlut borgarinnar í Landsvirkjun. Nefndin taldi óeðlilegt hve mikið fjármagn borgarinnar væri bundið í orkufyrirtækjum – borgin átti þá meirihluta í Orkuveitu Reykjavíkur (OR) (um 95%) og jafnframt 44,5% í Landsvirkjun​. Einnig voru nefnd fjárhagsleg rök: Reykjavíkurborg bar ríflega 60 milljarða kr. ábyrgðir vegna lánaskuldbindinga Landsvirkjunar (m.a. vegna Kárahnjúkavirkjunar)​. Viðræðunefnd starfaði milli ríkis og fulltrúa Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar, sem átti 5% hlut í Landsvirkjun,

Borgarstjórnarkosningar voru vorið 2006 og að þeim loknum varð sjálfstæðismaðurinn Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri 13. júní og 1. nóvember 2006 kom það í hans hlut að skrifa undir sölusamning við borgina. Höfðu þá samningaviðræður um málið staðið með hléum í tvö ár.

Þetta er rifjað upp hér vegna þess að nú hefur Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri Samfylkingarinnar, vegið að sjálfstæðismönnum fyrir að selja hlut borgarinnar í Landsvirkjun. Fyrir vikið hefði borgin ekki notið „ríkulegra arðgreiðslna frá Landsvirkjun síðustu ár“, sjá dv.is 23. mars.

Heiða Björg leggur sig ekki í líma við að afla sér trúverðugleika eins og sannaðist á stuttri stjórnarformennsku hennar í samtökum sveitarfélaga. Hún ætti hins vegar að kynna sér rökin fyrir að Samfylkingin hóf á sínum tíma söluferlið á Landvirkjun. Flokkurinn hélt að fyrirtækið yrði fjárhagslega vanmáttugt vegna Kárahnjúkavirkjunar og borgin myndi axla skuldir vegna þess. Forsjálni í fjármálum hefur aldrei þvælst fyrir Samfylkingunni við stjórn Reykjavíkur.