12.5.2022 10:40

Sögulegt skref í Helsinki

Þess er nú beðið að meirihluti finnskra þingmanna samþykki að sótt verði um aðild og umsókn verði sendi NATO-ríkjunum fyrr en síðar. Verður málið á dagskrá þingsins í næstu viku.

Undir forystu Vladimirs Pútins Rússlandsforseta varð gerð tilefnislaus innrás í Úkraínu 24. febrúar 2022. Forsendurnar voru falskar þegar vísað var til ógnar frá NATO. Er ótrúlegt að sumir þeirra hér á landi sem vilja teljast marktækir í umræðum um alþjóðamál taki undir þennan falska söng Pútins og réttlæti ógn hans við heimsfriðinn.

Forvitnilegt verður að sjá hvernig þessi sérkennilegi söfnuður bregst nú við þegar ljóst er að Finnar, sem eiga tæplega 1.400 km löng sameiginleg landamæri með Rússum, hafa ákveðið að sækja um aðild að NATO.

8b2cf752-c731-5116-80cf-649861bc75ec-image-jpegSanna Marin og Sauli Niinistö kynna NATO-ákvörðun sína 12. maí 2022.

Sauli Niinistö Finnlandsforseti og Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, gáfu í dag (12. maí) sameiginlega yfirlýsingu um að með aðild að NATO næðu Finnar að tryggja öryggi sitt enn frekar..

Í yfirlýsingu forsetans og forsætisráðherrans segir meðal annars:

„Með aðild að NATO styrkir Finnland allt varnarbandalagið. Finnland verður að sækja um NATO-aðild án tafar. Við vonum að innlend skref sem enn eru nauðsynleg vegna þessarar ákvörðunar verði teknar á skjótan hátt á næstu dögum.“

Þess er nú beðið að meirihluti finnskra þingmanna samþykki að sótt verði um aðild og umsókn verði sendi NATO-ríkjunum fyrr en síðar. Verður málið á dagskrá þingsins í næstu viku.

Sænsk stjórnvöld leggja áherslu á að eiga samleið með Finnum inn í NATO og er vænst skjótra ákvarðana í Stokkhólmi næstu daga um sænska NATO-aðildarumsókn.

Þetta eru stórtíðindi í öryggismálum Norðurlandanna, Evrópu, á Norður-Atlantshafssvæðinu og raunar í öllu tilliti þegar skoðuð er sagan frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar og enn lengra aftur því að Svíar segjast hafa staðið utan hernaðarbandalaga í 200 ár þótt slík bandalög hafi ekki verið til síðan NATO var stofnað árið 1949.

Í umræðum undanfarið hefur því sjónarmiði verið hreyft að Svíar hafi valið sér stöðu utan NATO í kalda stríðinu því að annars hefðu Finnar verið neyddir til að ganga í Varsjárbandalagið sem Sovétstjórnin myndaði með leppríkjum sínum sem andsvar við NATO.

Upprifjunin sýnir í hnotskurn hve stórt skref Finnar stíga með ákvörðun sinni. Svonefndur vináttusamningur þeirra við Sovétmenn skipaði þeim ákveðinn sess á áhrifasvæði Rússa. Segist Finnlandsforseti nú ekki óska neinum að skipa slíkan sess og fráleitt sé að setja Úkraínumenn á þann bás eins og þeir sem draga taum Pútins vilja.

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, var í Stokkhólmi og Helsinki í gær og gaf stjórnvöldum þar loforð um hernaðarlega aðstoð yrði að þeim vegið þar til 5. gr. Atlantshafssáttmálans, stofnsáttmála NATO, veitir þeim nauðsynlega vernd. Heitstrengin sem Johnson gaf svipar til þess sem segir í Lissabon-sáttmála ESB um gagnkvæmar skyldur aðildarríkjanna á hættustund. Hvorki Finnar né Svíar telja slíka öryggistryggingu nógu sterka.

NATO-aðild er besta öryggistrygging sem þjóðir geta öðlast. Það sannast enn við innrásina í Úkraínu. Það er ekki útþensla NATO sem skapar hættu heldur að lönd eins og Georgía og Úkraína eru enn utan bandalagsins.