11.3.2025 11:32

Sögulegar kosningar á Grænlandi

Það er ekki auðvelt að skilgreina grænlenska flokka á vinstri/hægri ás því að afstaðan til sjálfstæðis ýtir öðrum hugsjónamálum til hliðar

Áhuginn á þingkosningum á Grænlandi í dag (11.mars) er alþjóðlegur vegna þess sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt um áhuga sinn á Grænlandi eftir að hann var kjörinn í nóvember 2024. Sunnudaginn 9. mars bauð hann Grænlendingum gull og græna skóga færðu þeir sig nær Bandaríkjunum í kjörklefanum.

Fréttir frá Grænlandi benda til þess að kjósendur sætti sig illa við þessar yfirlýsingar Trumps og verði frekar fráhverfir honum en hitt. Fyrir nokkrum vikum bar hátt hjá ýmsum að í stöðunni væri skynsamlegt fyrir Grænland að skapa sér á stöðu gagnvart Bandaríkjunum á sama hátt og nokkrar Kyrrahafseyjar hafa gert með því sem á ensku er kallað Compacts of Free Association (COFA), alþjóðasamningi sem gerði Grænland að hluta þríhyrnings með Bandaríkjunum og Danmörku. Bandaríkjastjórn hefur samið á þennan veg við Mikrónesíu, Marshall-eyjar og Palau á Kyrrahafi, allt fullvalda eyríki.

Þegar Múte B. Egede, formaður landstjórnar Grænlands, ræddi væntanlegar þingkosningarnar um áramótin gaf hann til kynna að þá yrði stigið fyrsta skrefið til þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Grænlands á komandi kjörtímabili. Egede er leiðtogi flokksins Inuit Ataqatigiit (IA), sjálfstæðissinnaðs flokks sósíalista til vinstri við jafnaðarmannaflokkinn Siumut. Þessir tveir flokkar mynda nú saman stjórn.

20250309-051103-L-1920x1280webGrænlenska útvarpið KNR sendi út kappræður flokksleiðtoga.

Haldi þeir meirihluta sínum á grænlenska þinginu, Inatsisartut, verða ekki róttæk umskipti í afstöðu Grænlands til umheimsins þótt áfram verði krafist aukinnar sjálfsstjórnar innan danska konungdæmisins. Ólíklegt er að Egede setji þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði á oddinn, einmitr vegna þess hvernig Trump hefur talað.

Með aðild að danska konungdæminu á stjórnin í Kaupmannahöfn lokaorðið um stöðu Grænlands í utanríkis- og varnarmálum. Grænlendingar vilja hins vegar sæti við borðið þegar um þessi mál og stöðu þeirra er rætt við aðra. Þá hefur Egede reiðst forystu Norðurlandaráðs fyrir að viðurkenna ekki Grænland.

Fái sama tveggja flokka stjórn ekki umboð til að sitja áfram getur hún leitað hófanna hjá öðrum flokkum eins og Demokraatit sem er til hægri við IA og Siumut. Flokkurinn talaði af nokkrum krafti fyrir free association í upphafi kosningabaráttunnar en hefur dregið í land vegna yfirlýsinga Trumps. Þá studdi borgaralegi flokkurinn Atassut fyrstu stjórn IA undir forystu Egede. Þar sat þá sjálfstæðisbaráttuflokkurinn Naleraq með IA.

Athygli beinist að Naleraq vegna þess að þingmenn Siumut gengu til liðs við hann í kosningabaráttunni og á lista flokksins er Qupanuk Olsen, helsti áhrifavaldur Grænlands. Hann kynni að verða stærri en Siumut. Naleraq stígur varlegar til jarðar í sjálfstæðismálum og aðdáun á Trump en hann gerði.

Það er ekki auðvelt að skilgreina grænlenska flokka á vinstri/hægri ás því að afstaðan til sjálfstæðis ýtir öðrum hugsjónamálum til hliðar. Nú er nýr flokkur í kjöri, Qulleq. Hann við hraða slitum við Danmörku hvað sem líður erfiðari efnahag til skamms tíma.

Þessar útlínur eru dregnar til að gefa hugmynd um stöðu sem er mjög óráðin