25.2.2025 10:09

Sögulegar alþjóðasviptingar

Það er dæmigert fyrir þá nýju stöðu sem Trump hefur skapað á alþjóðavettvangi að við atkvæðagreiðslu á allsherjarþingi SÞ um ólögmæta og tilefnislausa innrás Rússa í nágrannaríki skuli fulltrúi Bandaríkjanna skipa sér í sveit með Rússum, Kínverjum, N-Kóreumönnum og Írönum.

Þess var minnst á margvíslegan hátt í gær (24. febrúar) að þrjú ár voru liðin frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu til að þurrka landið út af kortinu og ryðja stjórnendum þess úr sessi. Nýir vindar blása og viðhorf breytast.

Ríkisoddvitar 12 Evrópuríkja og Kanada fóru til samstöðufundar í Kyiv með Volodymyr Zelenskíji forseta og þjóð hans. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra var þar og hét eins og aðrir meiri stuðningi við Úkraínumenn.

Í samræmi við stefnu Donalds Trump var enginn fulltrúi Bandaríkjanna á þessum fundi. Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna (SÞ) greiddi fulltrúi Bandaríkjanna atkvæði gegn tillögu sem Úkraína flutti með stuðningi Evrópuríkja. Í tillögunni eru Rússar fordæmdir og hvattir til að hverfa tafarlaust frá Úkraínu. Tillagan var samþykkt með 93 atkvæðum gegn 18 en 65 greiddu ekki atkvæði. Niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar var fagnað með lófataki.

Screenshot-2025-02-25-at-10.05.00Þingsalur Sameinuðu þjóðanna.

Bandaríkjastjórn lagði fram eigin tillögu um að bardögum skyldi hætt í Úkraínu án þess að gagnrýna Rússa fyrir innrás þeirra og ódæðisverk. Við meðferð tillögunnar á allsherjarþinginu voru samþykktar þrjár breytingartillögur frá Evrópuríkjum. Þar á meðal var tillaga um að bæta inn að Rússar hefðu hafið innrás í Úkraínu. Var tillagan þannig breytt samþykkt með 93 atkvæðum gegn 8 en 73 sátu hjá, þar á meðal bandaríska sendinefndin!

Það er dæmigert fyrir þá nýju stöðu sem Trump hefur skapað á alþjóðavettvangi að við atkvæðagreiðslu á allsherjarþingi SÞ um ólögmæta og tilefnislausa innrás Rússa í nágrannaríki skuli fulltrúi Bandaríkjanna skipa sér í sveit með Rússum, Kínverjum, N-Kóreumönnum og Írönum.

Að kvöldi mánudagsins 24. febrúar lögðu Bandaríkjamenn síðan fram tillögu í öryggisráði SÞ þar sem þess er krafist að bardögum verði hætt í Úkraínu án þess að þar sé áréttað að Rússar hófu stríðið með innrás sinni. Fulltrúar 10 ríkja studdu tillöguna, þar á meðal Kína og Rússlands. Danir, Frakkar, Bretar, Grikkir og Slóvenar greiddu ekki atkvæði.

Þessar atkvæðagreiðslur minna að nokkru á deilur sem urðu á vettvangi SÞ vegna Íraksstríðsins fyrir rúmum 20 árum og gjá myndaðist milli stjórna Bandaríkjanna og nokkurra Evrópuríkja. Nú er hins vegar í húfi að stöðva innrás sem ógnar öllu öryggiskerfi Evrópuþjóða, kerfi sem sækir styrk sinn í samvinnu þjóðanna beggja vegna Atlantshafs.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti reyndi að tala um fyrir Trump í Washington mánudaginn 24. febrúar og fimmtudaginn 27. febrúar fer Sir Keir Starmer forsætisráðherra Breta í sömu erindum á fund Trumps. Þeir stjórna báðir kjarnorkuherafla. Til hans verður litið öðrum augum en til þessa ef Trump ætlar að láta Evrópu sigla sinn sjó og draga úr skuldbindingum Bandaríkjanna innan NATO.

Friedrich Merz, verðandi kanslari Þýskalands eftir kosningarnar þar 23. febrúar, vill að Evrópa styrki hernaðarlegt sjálfstæði sitt innan NATO og útilokar ekki að gjörbreyting verði á samstarfinu innan bandalagsins.

Hvarvetna skoða ríki gæslu þjóðaröryggis á nýjum forsendum.