8.6.2019 10:28

Söguleg fjölmiðlaumbrot

Á ritstjórnarstefnu blaðanna er greinilegur munur þegar litið er til þess hvernig tekið er á viðfangsefnum í ritstjórnardálkum þeirra.

Um þessar mundir eru 17 ár frá því að Jón Ásgeir Jóhannesson keypti Fréttablaðið með leynd af Gunnari Smára Egilssyni. Jón Ásgeir beitti blaðinu í kosningabaráttunni 2003 í þágu Samfylkingarinnar. Þetta var á tíma Borgarnesræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þáv. formanns Samfylkingarinnar, þar sem hún sagði kaupsýslumenn skiptast í tvö horn, þá sem styddu Davíð Oddsson og andstæðinga hans.

Ári síðar logaði allt í illdeilum vegna fjölmiðlafrumvarps ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Efnt var til fjöldamótmæla af hálfu aðstandenda Fréttablaðsins sem ákölluðu Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, sér til hjálpar. Fjölmiðlafrumvarpið rann út í sandinn. Um allt þetta má lesa hér á þessum vefmiðli, bjorn.is, og í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi.

Þegar hér voru gefin út áskriftarblöð blómstraði Morgunblaðið og bar höfuð og herðar yfir aðra íslenska fjölmiðla. Stofnun fríblaðsins, Fréttablaðsins, var til höfuðs Morgunblaðinu.

64D423A20DEDE9435A878E2EA91705B986DAD515F4565DBB573040267508218E_713x0Þessa mynd birti Fréttablaðið þegar það sagði frá nýjum eiganda blaðsins, Helga Magnússyni.

Um nokkurt skeið hefur Fréttablaðið verið á sölulista. Á dögunum var síðan skýrt frá því að Helgi Magnússon fjárfestir hefði keypt helmingshlut í Torgi, eiganda Fréttablaðsins. Þar með lauk 17 ára einráðum Jóns Ásgeirs og fjölskyldu hans yfir blaðinu.

Skömmu áður en Helgi keypti þennan eignarhlut í blaðinu og settist í stjórn þess var Davíð Stefánsson sem á sínum tíma var formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins. Hann hefur ekki áður komið að ritstjórn eða blaðamennsku en hefur reynslu af störfum sem ráðgjafi fyrirtækja, þ. á m. alþjóðlegra.

Hvorki FréttablaðiðMorgunblaðið styðja stjórnmálaflokka en gæta eins og eðlilegt er hagsmuna eigenda sinna. Á ritstjórnarstefnu blaðanna er greinilegur munur þegar litið er til þess hvernig tekið er á viðfangsefnum í ritstjórnardálkum þeirra.

Á Fréttablaðinu er hvatt til frjálsra viðskipta og lýst eindregnum stuðningi við EES-aðildina án þess að fyllast ótta vegna þriðja orkupakkans. Þá sætir framganga Miðflokksins og þingmanna hans harðri gagnrýni.

Á Morgunblaðinu er lýst efasemdum um frjáls viðskipti eins og þau þróast með EES-samningnum og hart barist gegn þriðja orkupakkanum. Þá sætir framganga Sjálfstæðisflokksins og þingmanna hans harðri gagnrýni.

Þetta má kalla sögulega kúvendingu á íslenskum fjölmiðlavettvangi og forvitnilegt verður að sjá til hvers hún leiðir.