6.1.2025 14:42

Söguleg ákvörðun Bjarna

Stjórnmálaumræðurnar taka á sig annan svip á Íslandi vegna ákvörðunar Bjarna Benediktssonar. Hann hefur verið þungamiðja þessara umræðna um árabil.

Það eru söguleg þáttaskil í íslenskum stjórnmálum þegar Bjarni Benediktsson tilkynnir að hann láti af formennsku Sjálfstæðisflokksins og taki ekki sæti á alþingi þegar það kemur saman fyrir lok þessa mánaðar.

Allt frá því að Bjarni var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins í mars 2009 hefur hann verið áhrifamesti flokksforingi landsins. Hann tók við formennsku í flokknum við erfiðar aðstæður þegar hann lá vel við höggi vegna ásakana eftir bankahrunið haustið 2008.

1539240Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrir Bjarna vakti að leiða flokkinn í gegnum þann brimskafl og tryggja stöðu hans til áhrifa í íslenskum stjórnmálum til framtíðar. Hann lét ekki haggast þótt að flokknum og honum persónulega væri sótt, oft á ódrengilegan hátt og af litlum tilefnum.

Vorið 2013 tóku ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sæti í ríkisstjórn og sátu þar allt þar til ný ríkisstjórn var mynduð 21. desember 2024. Þetta er eitt mesta framfaraskeið í sögu þjóðarinnar og lengst af var Bjarni sá sem bar hita og þunga af stjórn fjármála ríkisins og framkvæmd efnahagsstefnunnar. Í tilkynningunni um afsögn sína segir Bjarni:

„Árangurinn sem við höfum náð frá því að flokkurinn tók sæti í ríkisstjórn að nýju árið 2013 hefur farið fram úr mínum björtustu vonum. Við búum í góðu þjóðfélagi, höfum staðið af okkur storma og áföll og erum í mikilli sókn. Lífskjör hafa vaxið stórum skrefum. Við getum sagt að hvergi sé betra að búa en á Íslandi.“

Undir þessi orð skal tekið. Þegar upp er staðið skiptir það stjórnmálamenn mestu hvernig þeir skilja við stjórn þjóðarbúsins ákveði þeir að snúa sér að öðru. Bjarni getur gengið inn á nýjan vettvang stoltur af þeim árangri sem hann hefur náð með hag þjóðarinnar að leiðarljósi.

Fylgi stjórnmálaflokka sveiflast. Bjarni hefur stýrt Sjálfstæðisflokknum í tæp 16 ár, næstlengst allra í 95 ára sögu flokksins. Landslag íslenskra stjórnmála hefur breyst mikið á þessum árum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur klofnað. Annars vegar eru þeir sem yfirgáfu flokkinn í því skyni að koma Íslandi inn í ESB. Hins vegar þeir sem kalla sig gjarnan fullveldissinna af því að þeir þykjast meiri Íslendingar en aðrir vegna andstöðu sinnar við ákvarðanir sem teknar eru í krafti EES-aðildarinnar.

Bjarni hefur staðið vörð um meginstoð stefnunnar í utanríkis- og varnarmálum, aðildina að NATO og varnarsamninginn við Bandaríkin. Hann hefur jafnframt staðið gegn aðild Íslands að ESB og ekki látið haggast þrátt fyrir ögranir jaðarflokkanna og fyrrverandi forystumanna Sjálfstæðisflokksins sem standa í forystu ESB-flokksins, Viðreisnar.

Það er til marks um pólitískt reynsluleysi og óraunsæi þeirra sem sitja nú í ríkisstjórn og segjast vilja samstöðu þjóðarinnar en setja síðan ESB-málið á oddinn.

Stjórnmálaumræðurnar taka á sig annan svip á Íslandi vegna ákvörðunar Bjarna Benediktssonar. Hann hefur verið þungamiðja þessara umræðna um árabil. Til sögunnar hefur komið hópur undirmálsmanna sem þrífst á níði um hann.

Sagan jarðar róginn en eftir stendur allt sem áunnist hefur á glæsilegum og mögnuðum stjórnmálaferli.