Snyder um Trump og Musk
„Trump er litli karlinn og Musk er stóri karlinn þegar litið er á raunveruleg fjárráð. Ef ég væri vinur Trumps myndi ég hafa áhyggjur af því. Ég held að við ofmetum Trump og vanmetum Musk,“ segir Timothy Sneyder
Timothy Snyder er prófessor í sagnfræði við Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Hann hefur sérhæft sig í málefnum Rússlands og þeirra þjóða sem féllu undir áhrifasvæði Sovétríkjanna. Eftir innrás Rússa í Úkraínu hefur hann ekki legið á liði sínu í stuðningi við Úkraínumenn. Hann hefur meðal annars staðið fyrir fjársöfnun til kaupa á vélmennum til að hreinsa jarðsprengjur sem Rússar hafa dreift í Úkraínu.
Snyder er höfundur fjölda bóka og hafa sumar komist á metsölulista, má þar nefnda On Tyranni (útg. 2017) og On Freedom (útg. 2018).
Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur þýddi fyrri bókina, Um harðstjórn, sem kom út hér árið 2018. Þar sækir Snyder efnivið í þekkinguna sem hann hefur aflað sér með rannsóknum á sögu Evrópu, bókin er hins vegar skrifuð fyrir Bandaríkjamenn. Forsetinn sem nefndur er til sögunnar oftar en einu sinni án þess að hann sé nafngreindur er Donald Trump, kviknar jafnan á rauðum viðvörunarljósum þegar höfundur nálgast hann.
Timothy Snyder.
Í breska blaðinu The Guardian í dag (4. jan.) ræðir Martin Pengelly við Snyder í tilefni af endurkomu Trumps í forsetaembættið og er athyglinni sérstaklega beint að tengslum Trumps og auðmannsins Elons Musk. Snyder telur að ríkasti maður heims eigi eftir að hafa óþægileg áhrif á forsetasembættið. Hann segir:
„Trump er litli karlinn og Musk er stóri karlinn þegar litið er á raunveruleg fjárráð. Ef ég væri vinur Trumps myndi ég hafa áhyggjur af því. Ég held að við ofmetum Trump og vanmetum Musk. Eðlilegt er að almenningur haldi að Trump eigi peninga en svo er ekki. Hann hefur aldrei haft raunverulega peninga handa á milli. Hann hefur aldrei haldið því fram að hann ætti peninga. Honum hefur hins vegar verið kappsmál að geta talið fólki trú um að hann eigi peninga. Hann hefur þó aldrei getað greitt skuldir sínar. Hann hefur aldrei getað fjármagnað eigin kosningabaráttu. Musk sem á sand af seðlum án þess að þeir skipti hann nokkru hefur raunverulega getað fjármagnað baráttu Trumps.“
Minnt er á að frá því í nóvember þegar Trump var kjörinn forseti hafi Musk stöðugt verið við hlið Trumps hvort heldur í Mar-a-Lago í Flórída eða í Notre Dame í París. Hann sé nú kallaður „besti vinur aðal“ (e. first buddy) og eigi að stjórna nýju hagræðingarráðuneyti með Vivek Ramaswamy, sem barðist við Trump í forsetaprófkjörinu.
Snyder segir að Trump geti ekki bæði látið eins og hann beri hag kjósenda sinna fyrir brjósti og hagsmuni Musks. Það bitni á Musk halli Trump sér að kjósendum. Þurfi Trump hins vegar á peningum að halda snúi hann sér til Musks. Trump verði annaðhvort að höggva á sambandið við Musk eða verða honum varanlega háður fjárhagslega. Vinir Trumps hafi ástæðu til að hafa áhyggjur af þessu.
Elon Musk notar peninga sína ekki aðeins til að ná pólitískum áhrifum í Bandaríkjunum heldur einnig í Bretlandi með stuðningi við Nigel Farage, hægra megin við Íhaldsflokkinn, og við AfD-flokkinn í Þýskalandi þar sem Musk er þó ekki tekið fagnandi með fúlgur sínar.