12.10.2019 12:21

Snorri í samtíð, nútíð og framtíð

Andri Snær Magnason hefur skrifað Auðhumlu og þar með Snorra Sturluson inn í loftslagsumræðurnar á snilldarlegan hátt í bók sinni Um tímann og vatnið.

Magnús Þór Hafsteinsson, ritstjóri Vesturlands, tók við. mig viðtal á dögunum og gerði því góð skil í blaði sínu 10. október eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Hér birti ég lokakafla samtals okkar eftir að það var tekið sé ég að Andri Snær Magnason hefur skrifað Auðhumlu og þar með Snorra Sturluson inn í loftslagsumræðurnar á snilldarlegan hátt í bók sinni Um tímann og vatnið.

IMG_9809Skólahúsið tilheyri Snorrastofu

Þegar Björn Bjarnason er spurður um hvaða aðrar hugmyndir hann sem formaður stjórnar Snorrastofu hafi um framtíðarverkefni stofnunarinnar þá nefnir hann strax þann húsakost sem þegar er fyrir hendi í Reykholti. „Mín hugmynd er sú að Snorrastofa fái allt gamla skólahúsið í Reykholti til umráða,“ segir hann.

Björn vísar til þess að á sínum tíma þegar skólahaldinu lauk hafi orðið að finna húsnæði Héraðsskólans nýjan tilgang og verkefni. „Það var ákveðið að nýta hluta skólahússins fyrir ráðstefnuhald, gistiaðstöðu fyrir fræðimenn og annað slíkt. Þannig er það enn í dag. Hinn hluti hússins, það er álman sem snýr í austurátt og með gafl að Snorralaug, var tekinn frá fyrir varabókasafn Landsbókasafnsins. Þar hafa verið geymdar bækur sem ber að varðveita en eru ekki í daglegri notkun. Staðsetningin hentaði vel því Reykholt er fjarri sprungubeltum og virkum eldvirknisvæðum. Nú blasir hins vegar við að þetta húsnæði er að verða of lítið, auk þess sem nútímakröfur kalla á öðruvísi og betri aðstöðu. Við viljum fara í viðræður við ríkið um að bækurnar í Reykholti verði fluttar í annað hús í Borgarbyggð. Ég veit að það er vilji til þessa hjá sveitarfélaginu en hér verður ríkið að koma að málum.“

Miðlun sagnaarfsins

Stjórn Snorrastofu vill þannig fá þennan hluta hússins undir sýningarhald á vegum Snorrastofu. Rökin fyrir mikilvægi þess eru handhæg.

„Við sjáum að flestir ferðamenn sem koma á staðinn fara að Snorralaug við hlið þessa hluta gamla skólahússins. Þarna væri hægt að setja upp þjónustuaðstöðu fyrir gesti og síðan sýningu sem tengdi Snorra og fornsagnaarfinn inn í nútímann og listsköpun síðustu alda allt fram til nútímans. Þessi arfur hefur orðið kveikjan að miklum menningarafurðum. Hér má nefna tónverk á borð við Niflungahring Wagners og ýmsar bókmenntir. Síðan hafa á undanförnum árum verið gerðar fjölmargar vinsælar kvikmyndir og sjónvarpsþættir sem byggja á þessum arfi. Nefna má kvikmyndirnar eftir sögum Tolkiens [Hringadróttinssögu og Hobbitan], Krúnuleikana [Game of Thrones] og Víkingana [Vikings]. Þarna er alltaf að bætast við nýtt efni. Fólk kannast við minnin sem koma fram í öllu þessu efni sem er sprottið upp úr sagnabrunni Snorra og annarra höfunda fornsagnanna. Okkar verkefni er að minna á að í Reykholti í Borgarfirði er staðurinn þar sem þetta hófst allt saman,“ segir Björn Bjarnason.

IMG_9765

Segjum frá á okkar forsendum

Stjórnarformaður Snorrastofu telur mjög mikilvægt að við Íslendingar leggjum rækt við sögu einstakra staða ekki síður en það sem þar er að sjá.

„Sagnaminnin gefa stöðunum gildi. Sjáum Þingvelli. Þar er landfræði- og náttúrufarslega glæsilegur staður á heimsminjaskrá UNESCO. Hann var valinn á skrána fyrst og fremst vegna menningar- og stjórnmálasögu sem tengist þessum forna þingstað.“

Björn Bjarnason segir Íslendinga eiga að segja þessa sögu á eigin forsendum. „Í dag kemur fólk vissulega til Íslands í eins konar pílagrímaferðir til að sjá handritin og kynna sér betur umhverfi þeirra. Stór hluti ferðamanna sem kemur hingað veit um framlag okkar til heimsmenningarinnar. Kynningarstarf á þeim þætti má þó efla til mikilla muna ekki aðeins fyrir aðra heldur einnig fyrir okkur sjálf nú á tímum alþjóðavæðingar þegar hætta er á að allir falli í sama mót. Þetta gerir enginn fyrir okkur, við verðum að gera það sjálf.“