Snemmbært fjárlagafrumvarp – ASÍ á röngu róli
Ýmsa kvarða má nota til að meta anda í stjórnarsamstarfi. Einn er sá að fylgjast með afgreiðslu fjárlaga, hvort hún dregst á langinn eða átök verði um mál utan þingnefnda og milli samstarfsflokka.
Ýmsa kvarða má nota til að meta anda í stjórnarsamstarfi. Einn er sá að fylgjast með afgreiðslu fjárlaga, hvort hún dregst á langinn eða átök verði um mál utan þingnefnda og milli samstarfsflokka.
Aðalumræðu um fjárlög ársins, 2. umræðu, lauk miðvikudaginn 21. nóvember með tæplega fjögurra klukkustunda langri atkvæðagreiðslu. Þarf að leita lengi til að finna sambærilega dagsetningu þessarar umræðu.
Þegar litið er til hennar ber að hafa í huga að um langt árabil var samkomudagur alþingis 10. október, síðan var hann færður fram til 1. október og loks til annars þriðjudags í september. Þessar dagsetningar ráða þó engu sé uppi mikill ágreiningur um málið.
Aðferðum við fjárlagagerðina hefur verið breytt. Næsta ströng nýleg lög um opinber fjármál ráða miklu og aðferðirnar sem beitt er með gerð gerð fjármálaáætlunar og stefnumótandi umræðum í tengslum við hana hafa mikið að segja. Þá hefur fjárlaganefnd alþingis tekið upp nýja starfshætti og vann Haraldur Benediktsson, Sjálfstæðisflokki, brautryðjendastarf í því efni sem formaður nefndarinnar.
Brátt er ársafmæli ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur með Bjarna Benediktsson sem fjármála- og efnahagsmálaráðherra. Ríkisstjórninni hefur tekist að skapa stöðugleika í stjórnmálalífinu þótt að henni sé sótt. Nú reynir á hana við gerð kjarasamninga en augljóst er að ráðherrar hafa lagt sig fram um viðræður við aðila vinnumarkaðarins og vita vel hvað klukkan slær á þeim vettvangi.
Nýir forystumenn takast nú á í kjaraviðræðum. Margir þeirra ganga til þeirra með stórar yfirlýsingar í farteskinu sem laga verður að ramma þjóðarbúsins. Miklu varðar að það takist, ekki síst fyrir umbjóðendur þessara sömu manna.
Sama dag og alþingi greiddi atkvæði eftir 2. umræðu fjárlaga sendi miðstjórn ASÍ frá sér ályktun vegna frumvarpsins. Engu er líkara en miðstjórnin hafi ekki fylgst með gangi málsins á þingi. Tímasetningin er stórundarleg og í efni ályktunarinnar er gengið að því sem vísu hægja taki á „vexti í efnahagslífinu“. Sagt „er óásættanlegt að stjórnvöld mæti ekki kröfum verkalýðshreyfingarinnar og nýti tækifærið til að ráðast í þau miklu verkefni sem bíða; að stórbæta lífskjör, styrkja velferðina og tryggja almenningi gott húsnæði á viðráðanlegum kjörum“.
Að segja þessum sjónarmiðum ASÍ hafnað í fjárlagafrumvarpi 2019 stenst ekki. Varðstaða um bætt lífskjör er best tryggð með því að verja kaupmáttaraukninguna sem orðið hefur undanfarin ár og sprengt alla fyrri skala. Það er einkennilegt ef miðstjórn ASÍ áttar sig ekki á því.