9.12.2020 9:58

Slegið á hjálparhönd

„Smitin á Landakoti vekja upp sorg. Sorg yfir hvernig þetta gerðist. Sorg að ekki sé löngu búið að laga ástandið. Við hefðum getað verið löngu búin að því,“ segir hún.“

Í nýjasta tölublaði Læknablaðsins er þessi fyrirsögn: Bjóða hjálparhönd sem ekki er þegin segja Teitur Guðmundsson og Anna Birna Jensdóttir

Teitur Guðmundsson er læknir og framkvæmdastjóri Heilsuverndar. Anna Birna Jensdóttir er framkvæmdastjóri Sóltúns. Rætt er við þau vegna þess að tilboðum fyrirtækja þeirra um hjúkrunarúrræði í COVID-19-faraldrinum hefur ekki verið svarað af heilbrigðisráðuneytinu. Ásdís Halla Bragadóttir, framkvæmdastjóri Heilsumiðstöðvarinnar í Ármúla, sem rekur meðal annars sjúkradvöl á Hótel Íslandi, sagði sömu sögu í Fréttablaðinu í byrjun nóvember.

Í Læknablaðinu segir:

„Heilbrigðisráðuneytið sendi ákall um fleiri hjúkrunarrými til forstjóra hjúkrunarheimila í tölvupósti þann 5. október. Þar er vandi spítalans áréttaður og beðið um hjálparhönd – það muni um hvert rými. Anna Birna segir að þótt ráðuneytið segi málið skoðað alvarlega hafi ekki borist símtal þaðan. „Ekki eitt einasta.“

Hún hafi heyrt hvernig forstjórarnir hafi tínt eitt og eitt pláss til en stærri hugmyndum hafi ekki verið svarað. „Ryki er slegið í augu almennings með ákalli án aðgerða.“ Anna Birna bendir á að ákallið hafi komið fyrir COVID-19-smitin á Landakoti sem dregið hafa á annan tug einstaklinga til dauða. Nú geti hjúkrunarheimilin ekki tekið við fólki fyrr en því sé batnað.

„Smitin á Landakoti vekja upp sorg. Sorg yfir hvernig þetta gerðist. Sorg að ekki sé löngu búið að laga ástandið. Við hefðum getað verið löngu búin að því,“ segir hún. [...]

„Þetta snýst um peninga og þekkingarleysi stjórnmálamanna sem kynnast ekki vandanum fyrr en ættingi þeirra þarf á þjónustunni að halda,“ segir hún. Vandinn sem við sé að etja kristallist í COVID-smitunum á Landakoti; lélegt húsnæði, skortur á mönnun og fræðslu. Vanda sem hefði mátt afstýra með framsýni í málaflokknum.“

459534Hjúkrunarheimilið Sóltún.

Í Læknablaðinu er málið borið undir Pál Matthíasson, forstjóra Landspítalans, sem segir:

„Landspítali hefur ekki aðra skoðun en þá að hvetja til þess að málin séu leyst með þeim hætti að kröfur um aðbúnað og þjónustu séu uppfylltar. Hverjir sinna þeirri þjónustu, ríki, borg eða einkaaðilar, hefur spítalinn enga skoðun á, en á í ágætri samvinnu við alla þessa aðila um ýmis konar þjónustu, meðal annars útskriftir aldraðra.“

Í grein í Morgunblaðinu í dag segir Óli Björn Kárason alþingismaður:

„Læknar, hjúkrunarfræðingar og aðrir hæfileikaríkir heilbrigðisstarfsmenn vilja eiga sömu möguleika og allir aðrir til að stofna eigið fyrirtæki - verða sjálfstæðir atvinnurekendur. En andstaðan við einkaframtakið er djúpstæð meðal stjórnmálamanna stjórnlyndis. Svo djúpstæð að það virðist skipta meira máli að leggja steina í götu einkaaðila en að tryggja bestu heilbrigðisþjónustuna og sjá til þess að fjármunum sé vel varið. Og um leið fækkar tækifærum heilbrigðisstarfsmanna.“

Í Læknablaðinu kemur fram að þau Anna Birna og Teitur hafa borið erindi sitt upp við ráðherra Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og nú VG. Öllum er ljóst að um þessar mundir blása ekki vindar einkaframtaks um ráðherragang heilbrigðisráðuneytisins. Hafa þeir aldrei borist þangað eða um aðra ganga ráðuneytisins?