27.9.2022 9:31

Sleggjudómar vegna Samherja

Þetta er óvenjuleg mynd af íslensku samfélagi samtímans og minnir helst á gamlar sögur af kaupfélagsvaldinu og misbeitingu þess.

Í bókinni Rosabaugi yfir Íslandi tók ég saman dæmi um það hvernig Fréttablaðinu var beitt af hörku fyrir eigendur sína á Baugsmálinu. Ýmsir blaðamenn sem þar gengu fram fyrir skjöldu í þágu eigenda blaðsins í viðleitni þeirra til að hafa áhrif á almenningsálitið, lögreglu, ákæruvaldið og dómara og útmála þá sem handbendi forsætisráðherra og dómsmálaráðherra í pólitískum ofsóknum eru enn starfandi.

„Blaðamennskan“ á þessum árum kemur í hugann núna vegna lögreglurannsóknar sem snertir blaðamenn.

Einstakir fjölmiðlar eru á bandi blaðamannanna og setja allt sem um þetta mál er sagt í samhengi þeim til varnar. Nú eru það ekki ráðherrar sem sagðir eru siga lögreglu á blaðamenn heldur norðlenska útgerðarfyrirtækið Samherji.

Í leiðara Fréttablaðsins í dag fullyrðir Elín Hirst að fyrirtækið hafi „sett á fót sérstaka skæruliðadeild til þess að reyna að koma óorði á þá sem hafa upplýst um tengsl þess við eitt stærsta spillingarmál sem upp hefur komið í Namibíu og þó víðar væri leitað“.

1658523424_dalvik-vinnsluhus-og-listaverk-1500Í leiðaranum segir einnig að í byggðarlögum þar sem Samherji hafi tögl og hagldir haldi fyrirtækið „umræðu og skoðanaskiptum í heljargreipum“. Gagnrýni á það „gæti þýtt stöðu- og tekjumissi“ ekki aðeins fyrir gagnrýnandann heldur einnig „einhvern úr frændgarðinum“. Leiðaranum lýkur á þessum orðum: „Fólk er óttaslegið og kýs að þegja.“

Þetta er óvenjuleg mynd af íslensku samfélagi samtímans og minnir helst á gamlar sögur af kaupfélagsvaldinu og misbeitingu þess.

Til að mála stöðu blaðamannanna pólitískum lit hengja verjendur blaðamannanna hatt sitt á þessi orð Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, á Facebook í febrúar 2022:

„Eru fjölmiðlamenn of góðir til að mæta og svara spurningum lögreglu eins og almennir borgarar? Hvernig getur það talist alvarlegt mál að lögregla óski eftir því að þeir gefi skýrslu?“

Um þau segir Elín Hirst:

„Sjálfur fjármálaráðherra landsins gengur fram fyrir skjöldu og tekur þátt í umræðu um málið þar sem hann ver mjög þá ákvörðun að blaðamennirnir sem staðið hafa í stafni við að upplýsa um Samherjamálið skuli hafa fengið réttarstöðu grunaðra í málinu.“

Hvar getur Elín séð þeim orðum sínum stað að ráðherrann „verji mjög“ að blaðamennirnir hafi fengið „réttarstöðu grunaðra í málinu“? Í fyrsta lagi hefur ráðherrann aldrei haldið uppi slíkum vörnum. Í öðru lagi voru blaðamennirnir með réttarstöðu sakborninga þegar ráðherrann varpaði fram spurningum sínum.

Málsvörnin fyrir blaðamennina á opinberum vettvangi er þannig út og suður. Settar eru fram fullyrðingar í trausti þess að enginn hafi fyrir því að kanna réttmæti þeirra.

Blaðamenn ættu að bíða þess að rannsókn þessa máls ljúki og það fái eðlilega réttarmeðferð áður en þeir fella sleggjudóma án þess að hafa nokkuð fyrir sér um málavexti.