Slagorðaflóð Landverndar
Í samtali við framkvæmdastjóra Landverndar hefði að ósekju mátt spyrja Auði Önnu um inntak tillagnanna sem eiga að kollvarpa orkunýtingu þjóðarbúsins. Það lifir enginn á innantómum slagorðum, ekki einu sinni Landvernd
Ritstjórn Morgunblaðsins bregst ekki oft við efni aðsendrar greinar í blaðinu á þann hátt að hringt sé í fulltrúa frjálsra félagasamtaka og þeim gefinn kostur á að svara greininni á fréttasíðu blaðsins í stað þess að fá inni í blaðinu með svargrein.
Dæmi um þetta er þó í blaðinu í dag (28. júní) þegar birt er samtal við Auði Önnu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Landverndar, vegna aðsendrar greinar sem Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs, fékk birta í blaðinu mánudaginn 27. júní. Þar gagnrýnir hann orkustefnu Landverndar með skýrum rökum og vísan í grænbók stjórnvalda um stöðu og áskoranir í orkumálum sem kom út í mars 2022. Þar er niðurstaðan að markmið um orkuskipti og kolefnishlutleysi náist ekki hér án frekari raforkuframleiðslu. Að sama skapi sé tvísýnt um orkuöryggi heimila og atvinnulífs, bæði vegna skorts á raforku og flutningsgetu.
Þessari meginniðurstöðu er Landvernd ósammála. Í grænbókinni sé að finna einhliða málflutning orkuiðnaðarins og þar sé reist á úreltri fortíðarsýn. Jóhannes bendir hins vegar á að Landvernd svari því ekki hvað koma eigi í staðinn fyrir orkufrekan iðnað í verðmætasköpun og gjaldeyristekjum. Landvernd tali um aðrar atvinnugreinar sem ekki útheimti teljandi orku án þess að segja til hvers sé vísað. Þá sé tómt mál að tala um full orkuskipti án teljandi aukningar í orkuframleiðslu og neikvæðra áhrifa á efnahagslega velsæld á Íslandi. Það standist einfaldlega ekki skoðun. Að óbreyttu hefði stefna Landverndar í för með sér „veruleg neikvæð áhrif á efnahagslega velsæld“.
Myndirnar eru úr grein Jóhannesar Stefánssonar í Morgunblaðinu mánudaginn 27. júní.
Í upphafi samtalsins við Auði Önnu til varnar stefnu Landverndar segir hún: „Við erum ekki bara einhverjir aumingjar sem bíða hérna eftir því að stórfyrirtæki komi og skapi handa okkur vinnu.“ Það er ekki mikið hald í yfirlýsingum af þessu tagi sem jafnframt eru niðrandi fyrir þá sem lagt hafa mikið af mörkum til að auka hagsæld þjóðarinnar fyrir utan að gefa til kynna að Landvernd sé á öðrum og æðra stalli en gagnrýnendur á stefnu félagsins. Lætur hún í það skína að ekki sé unnt að eiga orðastað við Jóhannes þar sem hann kunni ekki „101 í hagfræði“. Í stað þess að sækja frekar í auðlindir eigi að „koma á hringrásarhagkerfi og virða náttúruauðlindirnar“.
Hún leggur áherslu á að „forgangsraða“ verði orkunni „öðruvísi og betur“ án þess að útskýra það nánar. Með því að breyta „hvernig við nýtum orkuna sem er nú þegar framleidd getum við skapað meiri verðmæti“ segir í fréttinni með viðtalinu við Auði Önnu.
Eftir stendur að í óljósum tillögum Landverndar felst óhjákvæmilega skerðing lífskjara og gæða. Að félagið vilji ekki einu sinni viðurkenna að svo sé er aðeins til marks um hola og yfirlætisfulla stóryrðastefnu þess.
Úr því að talin var ástæða til að óska strax eftir viðbrögðum af hálfu Landverndar í samtali við framkvæmdastjóra félagsins hefði að ósekju mátt spyrja Auði Önnu um inntak tillagnanna sem eiga að kollvarpa orkunýtingu þjóðarbúsins. Það lifir enginn á innantómum slagorðum, ekki einu sinni Landvernd.