2.10.2019 9:47

Skýrslan um EES-samstarfið birt

Við settum okkur það markmið að starfa innan þess 12 mánaða ramma sem okkur var markaður í erindisbréfi utanríkisráðherra.

Í gær (1. október) kynntum við Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi frkvstj. Samtaka iðnaðarins, og Bergþóra Halldórsdóttir, lögfræðingur og forstöðumaður viðskiptaþróunar Íslandsstofu, skýrslu um EES-samstarfið. Skýrslan er 301 bls. og unnum við hana á einu ári, það er frá því að utanríkisráðherra skipaði okkur í starfshóp um verkefnið 30. ágúst 2018 fram í miðjan september 2019 þegar við skiluðum handriti okkar til umbrots og prentunar. Með okkur að gerð texta skýrslunnar komu Pétur Gunnarsson, þáv. sérfræðingur í utanríkisráðuneytinu, og Gaukur Jörundsson lögfræðingur.

IMG_0272-smallFrá blaðamannafundi um EES-skýrsluna í utanríkisráðuneytinu 1. október 2019. Frá vinstri Bergþóra Halldórsdóttir, Kristrún Heimisdóttir og Björn Bjarnason. Mynd: Utanríkisráðuneytið.

Við settum okkur það markmið að starfa innan þess 12 mánaða ramma sem okkur var markaður í erindisbréfi utanríkisráðherra. Tafir urðu um nokkra daga vegna þess að alþingi afgreiddi ekki þriðja orkupakkann fyrr en 2. september en við töldum nauðsynlegt að sjá fyrir endann á því máli áður en gerð skýrslunnar lyki.

Deilurnar um þriðja orkupakkann settu mikinn svip á umræður um EES-samstarfið frá mars 2018 og þar til yfir lauk. Eins og lesendur þessarar síðu minnar vita blandaði ég mér í umræðurnar vegna þess að mér þótti miklu skipta að halda nokkrum grundvallaratriðum lifandi eins og þeirri staðreynd að með því að taka pakkann upp í EES-samninginn í maí 2017 skuldbundu íslensk stjórnvöld sig að þjóðarétti til að innleiða pakkann í íslensk lög. Í skýrslunni er fjallað um nokkur mál í rammagreinum, sagðar smásögur, og saga þriðja orkupakkans rakin á þann hátt. Meðal annarra mikilvægra mála sem þannig eru skýrð er Icesave-málið.

IMG_0259-smallGuðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tekur formlega við skýrslunni 1. október 2019. Mynd: Utanríkisráðuneytið.

Við afhentum skýrsluna formlega á blaðamannafundi í utanríkisráðuneytinu og af því tilefni sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra meðal annars:

„Útkoma þessarar viðamiklu skýrslu er mikið fagnaðarefni og ég er sannfærður um að hún eigi eftir að verða þýðingarmikið innlegg í þær frjóu umræður sem nú standa yfir í þjóðfélaginu um kosti og galla EES-samstarfsins. Nú tekur við nákvæm rýni á efni skýrslunnar en mér sýnist ljóst af fyrstu yfirferð að um að starfshópurinn hafi vandað til verka í hvívetna og skoðað þessi flóknu mál út frá öllum hliðum. Um leið og ég óska starfshópnum til hamingju með afraksturinn færi ég honum mínar bestu þakkir fyrir vel unnin störf.“

Það er rétt hjá utanríkisráðherra að nú hefur skýrslan öðlast sjálfstætt líf. Það kemur í hlut okkar höfundanna að kynna niðurstöðuna og þá gefst okkur einnig tækifæri til að leggja út af því sem við segjum í skýrslunni. Eitt er að taka saman staðreyndir, meðal annars með samtölum við 147 einstaklinga í fjórum löndum, og koma þeim til skila á heildstæðan hátt eins og gert er í skýrslunni annað að taka þátt í umræðum um efnið, skýra það og álykta af því.

Hægt er að lesa skýrsluna í heild sinni áStjórnarráðsvefnum , það er vefsíðu Stjórnarráðs Íslands og einnig á Alþingisvefnum, það er vefsíðu alþingis.