Skýr stefna í varnarmálum
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hefur nú sent frá sér tímabæra og markverða samantekt um áherslur og aðgerðir í varnarmálum á kjörtímabilinu sem er að ljúka.
Styrjöld geisar í Evrópu og fréttir berast um að rússneski herinn sæki fram á vígstöðvum í Úkraínu samhliða því sem drónum og flaugum er skotið með sprengjur á borgir í Úkraínu. Tilgangur loftárásanna er að eyðileggja sem mest af grunnvirkjum, einkum orkuvirkjum Úkraínu, fyrir veturinn til að veikja viðnámsþol almennra borgara. Á vígvellinum vilja Rússar tryggja sér eins stórt yfirráðasvæði og frekast er unnt til að hafa öfluga fótfestu í viðræðum um endalok átakanna sem taldar eru líklegar í tengslum við valdatöku Donalds Trumps í Bandaríkjunum.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra ræddi við Trump í síma í gær og var þar meðal annars áréttað hve tengsl Íslands og Bandaríkjanna eru náin á öllum sviðum en ekki síst í varnar- og viðskiptamálum. Þar breytist ekkert eftir valdatöku Trumps en hagsmuna Íslands verður ekki gætt nema með virkri gæslu þeirra í náinni samvinnu við Bandaríkin.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hefur nú sent frá sér tímabæra og markverða samantekt um áherslur og aðgerðir í varnarmálum á kjörtímabilinu sem er að ljúka. Af skýrslunni sést hve mikil áhrif innrásar Rússa í Úkraínu 24. febrúar 2024 hafa verið hér, í norrænu samstarfi og á vettvangi NATO.
Í inngangi samantektarinnar segir utanríkisráðherra að spenna vegna innrásarstríðs Rússa fari enn vaxandi og ekki sé „lengur hægt að útiloka hernaðarátök í heiminum sem haft geta meiri áhrif á Íslandi en nokkru sinni fyrr á lýðveldistímanum“.
Þetta eru þung orð sem eiga því miður við full rök að styðjast. Einmitt þess vegna hefur verið undarlegt að fylgjast með kosningabaráttu hér undanfarnar vikur þar sem varla er minnst á hættuástandið sem ríkir og viðbrögð okkar og nágrannaþjóða við því.
Samantekt utanríkisráðuneytisins leggur grunn að efnislegum umræðum um hlut Íslands og er skýr áminning til þeirra sem eiga eftir að fara með stjórn landsins að loknum kosningum um að þeir komist ekki hjá því að taka skýra afstöðu í þágu þjóðaröryggis.
Almennt skulda stjórnmálaflokkarnir kjósendum skýra afstöðu til gæslu þjóðaröryggis fyrir kjördag. Við blasir að aðeins tveir flokkar, Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn, leggja spilin á borðið í varnar- og öryggismálum fyrir kosningarnar.
Það er samhljómur í afstöðu þessara tveggja flokka í varnarmálum en engin reynsla er fyrir hendi um hæfni Viðreisnar til að taka á þessum málum frekar en öðrum. Þá er Viðreisn ofar í huga að ganga í ESB en að rækta sambandið við Bandaríkin, eina ríkið sem hefur styrk til að tryggja öryggi á Norður-Atlantshafi.
Í kosningunum núna er Sjálfstæðisflokkurinn eini flokkurinn sem boðar skýra stefnu í utanríkis- og varnarmálum. Það er staðfest með þessari samantekt á þróun mála undir forystu flokksins í utanríkisráðuneytinu á kjörtímabilinu. Vinstri slys á þessum vettvangi eru hættulegri en á öllum öðrum.