23.9.2024 15:00

Skýr skilaboð frá NB8

Ummæli gestanna frá NB8 á Varðbergsfundinum sýndu að þeim finnst að Íslendingar eigi að leggja meira af mörkum til sameiginlegs öryggis. Þessi gagnrýni er skaðleg fyrir orðspor þjóðarinnar.

Formenn utanríkismálanefnda þinga norrænu ríkjanna og Eystrasaltsríkjanna efndu hér til funda í dag (23. september). Formennirnir hittast undir merkinu NB8 (Nordic+Baltic = 8). Jóhann Friðrik Friðriksson, formaður utanríkismálanefndar alþingis (Framsóknarflokki), stýrði fundi með þeim í Smiðjunni, nýju húsi þingsins, þar sem ég ræddi við hópinn um öryggismál á norðurslóðum.

Þá stjórnaði Diljá Mist Einarsdóttir, fráfarandi formaður utanríkismálanefndar þingsins (Sjálfstæðisflokki), fundi Varðbergs í Háskólanum í Reykjavík þar sem erlendu gestirnir fluttu allir ræður og svöruðu fyrirspurnum. Mátti fylgjast með fundinum í streymi.

IMG_0907Smiðjan að morgni 23. september 2024.

Að kvöldi fimmtudagsins 12. september mátti sjá 90 mínútna þáttinn : Nordens svar på Putins krig á DR2. Þar voru spyrjendur frá ríkissjónvarpsstöðvunum í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Utanríkisráðherrar Danmerkur og Noregs, varnarmálaráðherra Svíþjóðar og ráðherra norrænna mála í Finnlandi voru fyrir svörum. Þá kynntu sérfræðingar og álitsgjafar sjónarmið sín.

Frá því var sagt í fréttum að ekki hefði þótt ástæða til að bjóða ríkisútvarpinu hér aðild að þessari norrænu umræðu enda hefði hún snúið að Eystrasaltinu. Það er mikill misskilningur, sé þetta rétt, hjá þeim norræna dagskrárstjóra á ríkisfjölmiðli sem telur að afstaða íslenskra stjórnvalda í öryggis- og varnarmálum skipti ekki máli fyrir öryggi þjóðanna við Eystrasalt.

Á Varðbergsfundinum hvatti Michael Aastrup Jensen, nefndarformaður frá Danmörku (Venstre), okkur Íslendinga til mikillar árvekni í öryggismálum. Við ættum að gera okkur grein fyrir að tækist ekki að stöðva framgang Rússa í Úkraínu og þeir tækju síðan að færa sig meira upp á skaptið og hæfu hernað gegn nágrönnum sínum í NATO yrði Ísland eitt af fyrstu skotmörkunum til að hindra liðs- og birgðaflutninga frá N-Ameríku til Evrópu.

Af vefsíðu Folketingets má ráða að Michael Aastrup Jensen hafi látið sig málefni Færeyja og Grænlands sérstaklega varða en danska þingið hefur ákveðið að verja miklum fjármunum til að efla eftirlit og öryggisgæslu Norður-Atlantshafseyjanna.

Skal hér enn einu sinni hvatt til þess að hugað verði að því hvað við Íslendingar þyrftum að leggja af mörkum til að verða virkir þátttakendur í þeim nýjungum sem eru á döfinni í þessum efnum hjá nágrönnum okkar. Þar skiptir mestu að þróa tækjabúnað og starfsemi landhelgisgæslunnar í takti við það sem bandamenn okkar gera. Væri skynsamlegt að færa þennan þátt öryggisgæslu okkar frá utanríkisráðuneytinu til dómsmálaráðuneytisins. Í stofnunum þess starfa þeir sem fara með aðgerðastjórn og vita hvar skórinn kreppir.

Ummæli gestanna frá NB8 á Varðbergsfundinum sýndu að þeim finnst að Íslendingar eigi að leggja meira af mörkum til sameiginlegs öryggis. Þessi gagnrýni er skaðleg fyrir orðspor þjóðarinnar. Vegna ytra öryggis eigum við allt undir því að aðrir leggi okkur lið á hættutímum. Það birtist á alltof mörgum sviðum hve andvaralaus við erum gagnvart ytri hættum og ekki bætir úr skák að ímynda sér að ein og óstudd getum við tekist á við þær.