Skýr niðurstaða í Strassborg
Að sjálfsögðu bar að fá niðurstöðu yfirdeildar MDE í landsréttarmálinu. Með henni er eytt allri óvissu í íslenska réttarkerfinu.
Ummælin sem þingmennirnir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir Pírati, Helga Vala Helgadóttir Samfylkingu og Rósa Björk Brynjólfsdóttir utanflokka, létu falla í útvarpi og sjónvarpi í gær (1. desember) vegna niðurstöðu yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í svonefndu landsréttarmáli þriðjudaginn 1. desember eru svo fjarri því að vera málefnaleg að óþarft er að elta ólar við þau.
Hatrið á Sjálfstæðisflokknum sem er sameiginlegt þingmönnum Pírata og Samfylkingar mótar líklega stefnu flokkanna í kosningum á komandi ári. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hafði það helst fram að færa á landsfundi flokksins fyrir skömmu að hann vildi ekki í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.
Að sjálfsögðu bar að fá niðurstöðu yfirdeildar
MDE í landsréttarmálinu. Með henni er eytt allri óvissu í íslenska réttarkerfinu.
Sigríður Á. Andersen, þáv. dómsmálaráðherra, vildi jafna hlut karla og kvenna að
ósk þingmanna og breytti röð dómaraefna frá tillögum dómnefndar áður en hún lagði
málið fyrir alþingi og forseta Íslands að afgreiðslu þingsins lokinni. Aldrei
hefur átt að vanda meira aðferðina við að velja dómara á Íslandi en í þessu tilviki.
Dómhús MDE í Strassborg
Þegar þeir sem sættu sig ekki við niðurstöðu framkvæmdavalds og löggjafarvalds létu reyna á rétt sinn fyrir dómsvaldinu taldi hæstiréttur að samkvæmt stjórnsýslulögum hefði dómsmálaráðherra átt að gefa sér lengri tíma til að rannsaka og rökstyðja breytinguna á röðinni frá dómnefndinni. Þarna er um matskennt atriði að ræða en dómsvaldið vildi eiga síðasta orðið.
Vegna þessa var síðan lagt af stað í leiðangur til MDE í Strassborg og lauk honum endanlega 1. desember 2020. Í niðurstöðunni er tekið undir með hæstarétti um að dómsmálaráðherra hefði átt að rannsaka og rökstyðja tillögu sína betur auk þess sem fundið er að því að á alþingi voru greidd atkvæði um alla 15 landsréttardómarana saman en ekki hvern um sig, niðurstaðan hefði þó orðið sú sama.
Í aðdraganda úrskurðarins gaf fréttastofa ríkisútvarpsins til kynna að um 300 landsréttarmál yrðu í uppnámi vegna ákvörðunar MDE. Þetta var úr lausu lofti gripið, MDE tekur af skarið um það. Fyrir MDE var gerð krafa um skaðabætur eða sýknu fyrir þann sem var dæmdur í landsrétti og hæstarétti. MDE hafði þær kröfur að engu. Lögmaðurinn sagðist hafa 12 sambærileg mál á hendi. Frekari meðferð þeirra í Strassborg er tilgangslaus.
Vonbrigðin vegna niðurstöðu landsréttarmálsins birtust á þennan hátt hjá fulltrúa Pírata í leiðarahópi Fréttablaðsins í dag (2. desember):
„Þegar öllu er á botninn hvolft virðast engir hagsmunir hafa legið að baki því að óska eftir endurskoðun dómsins nema hagsmunir Sjálfstæðisflokksins og þeirra dómara sem ráðherrar þess flokks hafa skipað með ólögmætum hætti.“
Þarna er sem sagt harmað að allar leiðir voru tæmdar í Strassborg vegna þessa máls. Höfundurinn, Aðalheiður Ámundadóttir, gerir sér grein fyrir að niðurstaða MDE veikir fyrst og síðast málstað þeirra sem boðuðu hrun íslenska réttarríkisins 1. desember 2020 – ekkert slíkt gerðist.