20.9.2021 9:40

Skýr kostur í flokkageri

Annaðhvort verði Sjálfstæðisflokkurinn áfram í ríkisstjórn og hafi áhrif á að móta ábyrgan stjórnarsáttmála eða ný stefna kemur til sögunnar með skattahækkunum.

Umræður í upphafi kosningaviku snúast um könnun MMR fyrir Morgunblaðið sem sýnir að í spilunum eins og þau liggja fyrir mánudaginn 20. september séu 15 kostir til stjórnarmyndunar að loknum kjördegi 25. september. Talið er að 9 flokkar fái þingmenn og sagt er að Framsóknarflokkurinn sé gjaldgengur í 13 kosti af þessum 15 til stjórnarmyndunar.

Margir flokkar voru í boði í nýlegum þingkosningum í Noregi. Þær leiddu til stjórnarskipta og nú vinnur Jonas Gahr Støre, formaður Verkamannaflokksins, að því að mynda stjórn. Hann fagnar sínu sæla að geta myndað meirihlutastjórn með þremur flokkum og var fljótur að taka af skarið um að hann ætlaði ekki að eiga samstarf við Rødt, kommúnista, systurflokk Sósíalistaflokks Íslands.

Norrænir stjórnmálamenn líta að sjálfsögðu á það sem neyðarbrauð að sitja uppi með minnihlutastjórn að kosningum loknum. Þeir reyna að gera það besta í stöðunni en sigla stundum í strand eins og gerðist í Svíþjóð á dögunum þegar Stefan Löfven, forsætisráðherra jafnaðarmanna, dró sig í hlé í nokkra daga og gaf öðrum kost á að reyna fyrir sér um myndun stjórnar, ákvað síðan að sitja út kjörtímabilið en sagði af sér flokksformennsku. Ástæðan fyrir að Löfven rauf ekki þing var að þá hefði verið kosið til sænska þingsins nú í haust og að nýju haustið 2022, stjórnlögin mæla fyrir um kosningar á fjögurra ára fresti. Í Noregi er bannað að rjúfa þing.

Hér sitja minnihlutastjórnir í stuttan tíma til að skapa tóm til að átta sig á næsta leik. Síðast studdi Framsóknarflokkurinn minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar vorið 2009.

1298168Þessi skýringamynd birtist í Morgunblaðinu 20. september og lýsir kostum til stjórnarmyndunar miðað við útreikninga á grundvelli skoðanakönnunar.

Í kjölfarið sigldi síðan stjórn þeirra tveggja (Samfylkingar og VG), ein versta stjórn lýðveldistímans. Undir lokin var þessi tveggja flokka stjórn orðin svo veikburða að hún varð að leita stuðnings Brigittu Jónsdóttur og Þórs Saaris sem þá voru byrjuð flokkaflakk en skipa sér nú í raðir Sósíalistaflokks Íslands.

Í ljósi alls þessa ber að skoða orð Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, sem segir í Morgunblaðinu í dag að kostirnir á kjördag séu mjög skýrir: Annaðhvort verði Sjálfstæðisflokkurinn áfram í ríkisstjórn og hafi áhrif á að móta ábyrgan stjórnarsáttmála eða ný stefna kemur til sögunnar með skattahækkunum, meiri ríkisútgjöldum og aðför að stöðugleikanum. „Ég segi fullum fetum að slík stjórn muni missa tökin á efnahagsmálunum,“ segir Bjarni sem hefur leitt efnahags- og fjármál þjóðarinnar um árabil með frábærum árangri. Hann segir einnig:

„Þegar ég kom í fjármálaráðuneytið á sínum tíma vorum við föst í höftum, vorum með slitabúin óuppgerð, vorum rétt að skríða í afgang og við vorum ennþá með marga mjög háa skatta. Við fórum í að láta auðlegðarskattinn renna út, raforkuskattinn renna út, afnema bankaskattinn, afnema vörugjöld á Íslendinga borguðu himinhá vörugjöld af alls konar heimilisvörum, húsbúnaði, fötum og skóm. Tókum um 1.800 vöruflokka í 0. Við slógum niður tolla, fórum svo í tekjuskattinn, tryggingargjaldið, örvuðum hagkerfið. Snerum við stöðu þjóðarbúsins.“

Þarna nefnir formaður Sjálfstæðisflokkanna skattana og gjöldin sem koma að nýju með sjálfstæðismenn utan ríkisstjórnar. Kostirnir eru skýrir þótt flokkarnir séu margir.