7.3.2023 11:37

Skuldafenið og Borgarskjalasafn

Borgarskjalasafnið verður aldrei bjarghringur í skuldafeni meirihlutans. Miklu meira en niðurlagningu þess þarf til að lækka ávöxtunarkröfuna.

Vandræði Reykjavíkurborgar vegna skorts á lánsfé aukast jafnt og þétt. Innherji á visir.is birti föstudaginn 24. febrúar frétt undir fyrirsögninni: Borgin í þungum róðri á skuldabréfamarkaði.

Í fréttinni segir að hækkun ávöxtunarkröfunnar á skuldabréfum Reykjavíkurborgar skili sér í „verulega þungri vaxtabyrði“ á nýjum lánum. Krafan á óverðtryggða skuldabréfaflokknum RVKN 35 1, sem standi í ríflega 8,8%, hafi hækkað um 1,5 stig frá áramótum.

Ávöxtunarkrafa Reykjavíkurborgar snýr að þeim vöxtum sem borgin þarf að greiða til að fá lán á skuldabréfamarkaði. Í kröfunni birtist áhættumat lánveitenda, skuldabréfakaupenda, á fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar. Tölurnar sýna hve hratt sígur á ógæfuhliðina hjá borgarsjóði.

Afneitun í fjármálum borgarinnar einkennir stjórnarhætti Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Nú þyngist róðurinn þegar innlendi skuldabréfamarkaðurinn lokast á Reykjavíkurborg, „Græn skuldabréf“ borgarinnar til að standa undir kostnaði við borgarlínu, lagningu hjólreiðastíga og göngustíga, LED væðingu götulýsingar, hleðslustöðvar fyrir rafbíla og fleira seljast ekki.

IMG_6518

Fimmtudaginn 16. febrúar hófst opinber aðför Dags B. gegn Borgarskjalasafni með tillögu í borgarráði sem hann vildi að samþykkt yrði umræðulaust. Var því hafnað. Fór borgarstjóri með tillögu sína sem leyndarmál í viku og þá færðust umræður um málið á grátt svæði.

Undrun vakti að borgarstjóri sagði á ruv.is mánudaginn 27. febrúar að Reykjavíkurborg mundi spara „rúma sex milljarða króna á næstu sjö árum með því að reka starfsemi borgarskjalasafns í samvinnu við þjóðskjalasafnið frekar en að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir til að koma borgarskjalasafni í rétt horf og reka sem sjálfstæða einingu“.

Þarna er víst gert ráð fyrir að reist verði hús yfir Borgarskjalasafnið. Innan ramma skynsamlegrar umræðu um framtíð safnsins var yfirlýsingin út í hött.

Leita verður annarra skýringa á óðagoti borgarstjóra í þessu máli en snýr að stöðu og gagnsemi Borgarskjalasafns enda hefur ekki komið fram nein fagleg gagnrýni á starfsemi safnsins undir stjórn Svanhildar Bogadóttur.

Vegna braggamálsins fræga fyrir þremur árum réðst yfirstjórn borgarinnar að vísu á safnið þegar það benti á misbrest á lögbundinni skráningu skjala.

Sex milljarða sparnaðaryfirlýsingu borgarstjóra 27. febrúar ber að skoða sem neyðarkall hans. Lánardrottnar vilja ekki lengur kaupa skuldabréf borgarinnar nema fyrir liggi skýr yfirlýsing um hvert stefni í fjármálum borgarinnar. Þarna boðaði borgarstjórnin sex milljarða sparnað út í loftið og blekkingarleiknum verður haldið áfram í borgarstjórn í dag (7. mars).

Leyndin og óðagotið sýnir örvæntingu meirihluta sem er að sökkva í skuldafen. Í stað þess að hverfa frá „grænu gæluverkefnunum“ á að slátra Borgarskjalasafninu. Að eyðileggja söfn er almennt talið hámark menningar- og metnaðarleysis opinberra valdhafa.

Borgarskjalasafnið verður aldrei bjarghringur í skuldafeni meirihlutans. Miklu meira en niðurlagningu þess þarf til að lækka ávöxtunarkröfuna.