24.7.2020 9:59

Skuggastjórnendur ASÍ

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er ómyrkur í máli í Fréttablaðinu í dag þegar hann snýst til varnar fyrir sjálfstæði lífeyrissjóðanna gegn skuggastjórn á þeim.

Það sannast enn í viðtali sem sagt er frá á dv.is í dag (24. júlí) að Drífa Snædal, forseti ASÍ, stendur á vinstri jaðrinum og hrópar þaðan. Hún vill knýja fram öfgafull markmið í anda Sólveigar Önnu Jónsdóttur, sósíalistans í formennsku Eflingar-stéttarfélags, strengjabrúðu Viðars Þorsteinssonar og Gunnars Smára Egilssonar, höfuðsmiða Sósíalistaflokks Íslands. Þar er skuggastjórn ASÍ.

Í tilrauninni til að knésetja Icelandair, að lokum með hótunum um að beita lífeyrissjóðum gegn félaginu sást hve þessi hópur vill ganga langt. Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ, réttlætti atlöguna að Icelandair með því að smíða samsæriskenningu um að Samtök atvinnulífsins bönnuðu Icelandair að semja við flugfreyjur af því að markmiðið væri að drepa verkalýðshreyfinguna. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, talaði í svipaða veru.

Þegar Halla birti samsæriskenningu sína á Facebook lá fyrir að ríkissáttasemjari hafði boðað aðila kjaradeilu flugfreyja til sáttafundarins sem leiddi til kjarasamnings aðfaranótt sunnudags 19. júlí. Forysta ASÍ var með öðrum orðum í eigin samsærisheimi án tengsla við veruleikann.

Drífa Snædal segir á dv.is:

„Mér finnst alvarleg pólitísk staða að vera ekki með neinn róttækan vinstri flokk sem getur togað pólitíkina til vinstri. [...] Það á aldrei að vanmeta stjórnarandstöðuflokka sem geta dregið umræðuna í rétta átt.“

Drífu segist líða vel utan flokka, ekki standi til að hennar frumkvæði að stofna nýjan stjórnmálaflokk, hún viti ekki hvern hún ætli að kjósa í næstu kosningum. Hún stendur sem sagt á vinstri jaðrinum og notar ASÍ til að toga pólitíkina til vinstri eins og sést hefur.

UnddnamedÁsgeir Jónsson seðlabankastjóri er ómyrkur í máli í Fréttablaðinu í dag þegar hann snýst til varnar fyrir sjálfstæði lífeyrissjóðanna gegn skuggastjórn á þeim eins og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður stjórnar VR, vill beita. Seðlabankastjóri segir:

„Hvernig getur stjórnarmaður verið sjálfstæður þegar hægt er að skipta honum út hvenær sem er – vegna þess að tilnefningaraðilanum líkar ekki við ákvarðanir hans? Það er óþolandi ef sjóðsfélagar, sem eru að safna fyrir ævikvöldi sínu, geta ekki gengið að því vísu að fjárfestingarákvarðanir séu teknar í samræmi við hagsmuni þeirra.[...]

Við höfum slæma reynslu af skuggastjórnun – afskaplega slæma við. Það var tekið hart á því í stjórnun banka og hlutafélaga í kjölfar hrunsins en lífeyriskerfið hefur setið eftir. Við svo búið má ekki standa.“

Þarna er vikið að því að jafnan þegar rætt er um breytingu á stjórnarháttum sem snerta hagsmuni verkalýðsrekenda er lagt af stað í stórpólitíska leiðangra til að hindra slíkar breytingar. Í viðtalinu við Fréttablaðið segir Ásgeir Jónsson:

„Að mínu áliti þarf að stíga miklu fastar til jarðar í því að tryggja sjálfstæði [lífeyris]sjóðanna. Ég tel að regluumhverfi þeirra sé allt of veikt og að Fjármálaeftirlitið þurfi öflugri heimildir til inngripa.“

Þetta er eitur í beinum skuggastjórnendanna.