2.1.2023 9:51

Skrýtinn áramótaboðskapur

Þá birtist grein í Morgunblaðinu þar sem stuðningsþjóðum Úkraínumanna er kennt um rússneska viðbjóðinn. Því eru takmörk sett hvað telja má boðlegt fyrir áskrifendur.

Fyrsta tölublað Morgunblaðsins á nýju ári kom út í dag, 2. janúar, og þar birtast aðsendar greinar eins og venja er. Hér skal staldrað við þrjár. Þótt þær séu ekki endilega skrifaðar í tilefni áramótanna má líta á þær í því ljósi og velta fyrir sér hvert stefndi ef sjónarmið höfunda yrðu ráðandi á nýbyrjuðu ári.

Ragnar Önundarson viðskiptafræðingur hefur skrifað nokkrar greinar í blaðið undanfarið. Af þeim mætti ráða að stigið hafi verið óheillaaskref með aðild Íslands að samningnum um evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn). Stórmerkar æviminningar Jóhannesar Nordals, Lifað með öldinni, minna á að aðildin að EES er eðlilegt framhald þeirrar stefnu sem mótuð var af viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks fyrir rúmum 60 árum.

Með EES-samningnum urðu þáttaskil í íslensku samfélagi sem aldrei hefur blómstrað eins og undanfarna áratugi og sýnt gífurlega aðlögunarhæfni að erfiðum aðstæðum. Ragnar býður engan betri kost með aðfinnslum sínum sem standast ekki allar eins og fullyrðing hans í dag um rekja megi húsnæðisvanda nú til fjármála sveitarfélaga sem hafi „fengið aukin verkefni án aukinna tekna og neyðast því til að selja hæstbjóðendum lóðirnar“. Stærsta einstaka verkefnið sem flutt hefur verið frá ríkinu til sveitarfélaganna, grunnskólinn, var fullfjármagnað með nýjum tekjum.

Högni Elfar Gylfason, varaþingmaður Miðflokksins, segir að „það virðist ljóst að við stefnum í sömu átt og Norðmenn“ í orkumálum vegna „orkupakka 3 frá Evrópusambandinu“. Í Noregi skelfi „fólk af kulda við skírn barna og útfarir sinna nánustu, sem og við aðrar kirkjulegar athafnir“ söfnuðir hafi ekki efni á að kynda kirkjurnar vegna orkupakka ESB.

Noregur skiptist í tvö orkusvæði. Í suðurhluta landsins hefur Evrópumarkaður áhrif á orkuverð vegna þess að norska orkukerfið er samtengt því evrópska. Hvort lýsing varaþingmannsins á hitastigi í norskum kirkjum er rétt liggur hér á milli hluta hitt er alrangt að þriðji orkupakkinn kalli á það ástand hér sem hann lýsir.

Russia_Ukraine_War_04170Bjargað því sem bjargað verður eftir sprengjuárás Rússa.

Werner Ívan Rasmusson eldri borgari segir að svo virðist sem stríðið í Úkraínu sé „endanlega komið úr böndum“. Ástæðan? „Stuðningur Vestur-Evrópuríkja við Úkraínu með ESB og NATO (= BNA) í fararbroddi hefur orðið íbúum Úkraínu dýrkeyptur. Borgir í rústum, orkuver stórsködduð, samgöngur í lamasessi og almenningur býr í kulda, við sult og seyru.“

Að umburðarlyndi ritstjórnar í frjálsu samfélagi skuli misnotað til að flytja slíka lygi og réttlæta óhæfuverk hers Rússa endurspeglar aðeins hve aðþrengdir skoðanabræður Pútins eru orðnir. Pútin gerði hershöfðingjann sem lagt hafði Aleppo og fleiri borgir Sýrlands í rúst með sprengjuárásum að yfirmanni innrásarhersins í Úkraínu og sprengjuregnið sem hófst í október stendur enn til að granda rafveitum, hitaveitum, sjúkrahúsum, skólum, verslunarmiðstöðvum, íbúðahverfum – öllu sem Pútin telur að hræði og þvingi Úkraínumenn til uppgjafar. Þá birtist grein í Morgunblaðinu þar sem stuðningsþjóðum Úkraínumanna er kennt um rússneska viðbjóðinn. Því eru takmörk sett hvað telja má boðlegt fyrir áskrifendur.