3.4.2017 9:01

Skrifað um þjóðfélagsmál með skáldaleyfi

Spuni um það sem menn héldu að hefði kannski gerst dugar ekki til að ályktað sé um rannsóknarnefnd alþingis. Spuni um stjórnmálasöguna breytir henni ekki. Samfylkingin skrifuð út úr sögunni.

 Hér hefur verið bent á að lögum samkvæmt verður ekki skipuð rannsóknarnefnd sem sama umboð og sú sem skilaði niðurstöðunni um blekkingarleik Ólafs Ólafssonar vegna kaupanna á Búnaðarbankanum nema alþingi ákveði það með ályktun.

Alþingi ályktaði um rannsókn vegna Búnaðarbankans að ábendingu umboðsmanns alþingis. Hann taldi ný gögn gefa tilefni til nýrrar rannsóknar.

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag segir að þingmenn Bjartrar framtíðar og Viðreisnar vilji rannsókn vegna sölunnar á Landsbankanum árið 2002. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins telja að ný gögn þurfi að liggja fyrir til að ályktað sé um það. Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, taldi frá upphafi ekki allt með felldu við söluna á Búnaðarbankanum. Hann segir nú við Fréttablaðið:

 „Hvað viltu rannsaka í Landsbankasölunni? Það er hægt að rannsaka og rannsaka en hver er spurningin í rannsókninni? Menn verða að leggja af stað með einhverja spurningu. Ég er alveg orðinn uppgefinn á þessari þvælu um að rannsaka og rannsaka.“

Þarna er komið að kjarna málsins: Hver er rannsóknarspurningin varðandi söluna á Landsbankanum? Er til of mikils mælst að ákærendur á alþingi kynni hana?

Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur lítur til baka í dálki sínum í Fréttablaðinu í dag vegna skýrslunnar um söluna á Búnaðarbankanum og segir:

„Þetta voru leiðindatímar. Umskiptin stóru í íslensku þjóðlífi urðu þarna um miðjan tíunda áratug síðustu aldar þegar Framsóknarmenn og Sjálfstæðisflokkurinn náðu saman í ríkisstjórn og stjórnuðu landinu í tíu ár. Gáfu vinum, lögðu niður stofnanir, ofsóttu óvini. Fóru fram með frekjulátum og sigri hrósandi markaðshyggju sem boðaði okkur endalok sögunnar á þeirri forsendu að Berlínarmúrinn féll og Sovétríkin hrundu, eins og það gerði óðakapítalisma eitthvað gáfulegri að kommúnisminn reyndist svindl og svínarí.

Með aðild að EES sáu þessi flokkar til þess að hér var innleidd séríslensk útgáfa af kapítalisma; nokkurs konar sérstök svindl- og-svínarísútgáfa þar sem því var sleppt að innleiða reglurnar sem gilda víðast á Evrópumarkaði en þeim mun meira gefið laust. Eftirlit í orði kveðnu, eins og átti eftir að koma á daginn rækilega.“


Hér er skrifað um þróun þjóðfélagsmála með skáldaleyfi. Stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var mynduð vorið 1995. EES-samningurinn gekk í gildi 1. janúar 1994. Hálfur þingflokkur Framsóknarmanna var andvígur honum. Alþýðuflokksmenn undir forystu Jóns Baldvins hafa fram undir þetta þakkað sér aðildina að EES.

Að fullyrða að á Íslandi hafi verið innleidd einhver sérútgáfa af EES-löggjöf með meira frelsi en annars staðar er reist á vanþekkingu. Með EES urðu Íslendingar aðilar að fjórfrelsinu sem hafði meðal annars í för með sér að síðustu leifar haftanna sem sett voru 1931 hurfu. Öll er þessi saga sögð í nýrri bók The Icelandic Financial Crisis eftir Ásgeir Jónsson og Hersi Sigurgeirsson. Orð Guðmundar Andra um svindl og svínarí við EES-innleiðingu hér eru hreinn hugarburður.

Að lokum voru það einmitt innlendu ákvarðanirnar sem margir töldu á skjön við EES-reglurnar sem dugðu okkur best þegar alþjóðalega fjármálakerfið riðaði til falls og íslensku bankarnir hrundu.

Hér á landi talaði enginn um endalok sögunnar vegna falls Berlínarmúrsins. Það gerði Bandríkjamaðurinn Francis Fukuyama í frægri bók The End of History and the Last Man (1992).

Við hvað er átt með setningunni: „Gáfu vinum, lögðu niður stofnanir, ofsóttu óvini.“? Þarna er endurtekinn spuni sem stundaður hefur verið síðan árið 2002 þegar Jón Ásgeir Jóhannesson og félagar hófu að láta að sér kveða í íslensku fjármálalífi og Samfylkingin tók þá upp á sína arma í Borgarnesræðu Ingibjargar Sólrúnar í febrúar 2003 í von um að sigra í þingkosningum þá um vorið.

Hluti þessa spuna er að skrifa jafnaðarmenn og samfylkingarfólk út úr sögunni. Þeir hurfu svo einfaldlega af vellinum eftir öll ESB-sjálfsmörkin.