Skrattakollar hér og þar
Á ensku er talað um cancel culture sem hefur verið kallað „slaufumenning“ á íslensku þótt til séu gamalgróin orð eins og útlegð eða útilokun um það sem er í húfi.
Þeir sem kannast við Stefán Hrafn Hagalín, deildarstjóra samskiptadeildar Landspítalans, vita að hann getur verið gráglettinn. Nú er því óstinnt tekið í leiðara Morgunblaðsins að hann skuli kalla fjölmiðlamenn „skrattakolla“ í innanhúsbréfi á Landspítalanum þar sem hann áréttaði reglur um fjölmiðlasamskipti. Í frétt Morgunblaðsins segir um þetta segir í dag:
„Það vakti athygli að Stefán Hrafn vísaði til blaða- og fréttamanna í póstinum sem „skrattakolla“. Varðandi orðalagið segist Stefán hafa verið þreyttur þegar hann skrifaði tölvupóstinn eftir að hafa verið kallaður úr sumarfríi sem var ekki nema fjórir dagar. Þá segir Stefán að einungis hafi verið um vinalega glettni að ræða.“
Leiðarahöfundur Morgunblaðsins er ekki alveg á því að þetta hafi verið „vinaleg glettni“ hann segir í dag undir fyrirsögninni „Þessir skrattakollar“.
„Stjórnendunum (hjá Landspítalanum) er sagt að „þessir skrattakollar“, eins og fjölmiðlarnir eru nefndir, hringi á öllum tímum sólarhrings, en til að stjórnendurnir svari ekki óvart þá er gefið upp á hvaða tölustöfum símanúmer miðlanna byrja.
Þessi tölvupóstur samskiptastjórans er með miklum ólíkindum og hlýtur að hafa einhverjar afleiðingar. Ekki síst vegna þess að þetta lýsir einhverju hugarfari sem er verulegt áhyggjuefni fyrir almenning.“
Hvort almenningur hefur ástæðu til að hafa verulegar áhyggjur af þessu er álitamál. Fréttir af Landspítalanum skortir ekki og mun ekki skorta hverjar svo sem afleiðingar þess verða að samskiptastjórinn hafi hrapað að orðinu „skrattakollur“ þegar honum var hugsað vinalega til fjölmiðlamanna.
Í ljósi þess sem til fellur í opinberum umræðum hér og hvernig vikið er að einstaklingum telst þetta varla til tímamóta. Nýlegt dæmi um ómaklega aðför að einstaklingi birtist einmitt í Morgunblaðinu fimmtudaginn 5. ágúst í grein eftir Kristín Ernu Arnardóttur, gjaldkera Stjórnarskrárfélagsins, þar sem hún vegur persónulega og ómálefnalega að Kristrúnu Heimisdóttur lögfræðingi vegna greinar hennar í Tímariti lögfræðinga um stjórnarskrármálið.
Gjaldkeri Stjórnarskrárfélagsins færir ekki efnisleg rök fyrir skoðun sinni heldur telur að Kristrún megi ekki tjá sig um málið án þess að þess sé getið að hún sitji í stjórn útgerðarfyrirtækisins Brims. Fræðileg grein Kristrúnar sé „hræðsluáróður málpípu útgerðarinnar“. Það sé „erfitt að sjá hvernig stjórnarmaður í Brimi getur verið faglegur og hlutlaus í þessari umræðu“.
Á ensku er talað um cancel culture sem hefur verið kallað „slaufumenning“ á íslensku þótt til séu gamalgróin orð eins og útlegð eða útilokun um það sem er í húfi. Á vestrænum stjórnmálavettvangi eru það einkum vinstrisinnar sem beita þessari útilokunaraðferð. Kristín Erna starfar innan Samfylkingarinnar en slaufumenningin á þar vaxandi fylgi að fagna. Ömurlegu aðferðinni beitir hún nú gegn Kristrúnu Heimisdóttur.
Morgunblaðið hefur í ritstjórnargreinum andmælt slaufumenningunni. Því verður ekki trúað að orðið „skrattakollur“ um fjölmiðlamenn verði til stefnubreytingar í því efni.