7.2.2025 10:36

Skortsstefna yfirfærð á sjávarútveg

Hótuninni um veiðigjöld á sjávarútvegsfyrirtæki sem stunda hagkvæmustu fiskveiðarnar fylgir minnkun veiðiheimilda til þeirra í þágu veiðigjaldslausra strandveiðimanna. Það á að skapa skort og hækka álögur á fórnarlömbin.

Markmið ríkisstjórnarinnar er að hækka gjöld á ferðaþjónustuna. Spurningin er hvernig það verður gert en ekki hvort.

Sama er uppi á teningnum í sjávarútvegi. Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra sagði við Stöð 2 í liðinni viku „að fiktað yrði þannig í sjávarútvegi að aðilar innan greinarinnar væru nú skjálfandi á beinunum. Og enn var formaðurinn í sama gírnum í Bítinu á Bylgjunni þar sem hún sagði að ráðist yrði að vigtun, ísun og aflaverðmæti,“ svo að vitnað sé í grein Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, á Vísi 5. febrúar.

Hótuninni um veiðigjöld á sjávarútvegsfyrirtæki sem stunda hagkvæmustu fiskveiðarnar fylgir minnkun veiðiheimilda til þeirra í þágu veiðigjaldslausra strandveiðimanna. Það á að skapa skort og hækka álögur á fórnarlömbin.

Screenshot-2025-02-07-at-09.33.50

Slík stefna er aðeins ávísun á ógöngur. Stjórnarflokkarnir Samfylking og Viðreisn hafa staðið að þessu með skipulögðum lóðaskorti í Reykjavík á undanförnum árum. Nú bætast orðhákarnir í Flokki fólksins í lið með þeim þegar gera á atlögu að sjávarútveginum. Inga Sæland stundar hræðsluáróður og Sigurjón Þórðarson, strandveiðimaður og formaður atvinnuveganefndar alþingis, vill leggja stein í götu fjölmiðla með því að skerða til þeirra ríkisstyrki – í Flokki fólksins eru þeir sem kunna best á opinbera styrkjakerfið.

Hér skal nú vitnað í Þorvald Gissurarson, forstjóra og eiganda ÞG Verks, sem komið hefur að byggingarframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu og segir Reykjavíkurborg bera þar mesta ábyrgð á lóðaskorti og aukinni gjaldtöku. Rætt er við hann í Morgunblaðinu í dag, 7. febrúar, og sérstaklega vikið að gjöldunum sem nú á að hækka vegna aukins kostnaðar við innviði. Þorvaldur segir:

„Hvað breyttist? Því fyrr á árum og um áratugaskeið innheimtu sveitarfélögin, þ.m.t. Reykjavíkurborg, gatnagerðargjöld eingöngu. Nú virðist þurfa margfalt hærri gjaldtöku en eru innviðirnir margfalt betri? Erum við að horfa fram á betra gatnakerfi, minni umferðartafir, betri leikskóla eða styttri biðlista? Eru grunnskólarnir betri? Hvað er orðið svona miklu dýrara í dag? Það er áleitin spurning. Gæti verið að það sé verið að taka þessa fjármuni og eyða þeim í eitthvað annað? Haft var eftir einum fulltrúa borgarinnar að þrátt fyrir þessa hækkun hjá borginni þá dygði gjaldið ekki fyrir gatnagerð og viðhaldi gatna. Síðan hvenær áttu gatnagerðargjöld að duga fyrir viðhaldi? Átti útsvarið eða fasteignagjöld ekki að standa undir því? Þetta er dálítið skrítin umræða. Aðalatriðið er að nú hefur skapast ófremdarástand og stefnir í að það versni. Það bráðvantar byggingarlóðir og einu aðilarnir sem geta breytt því og bætt ástandið eru sveitarfélögin. Það hefur verið talað um vandamálið sl. tíu ár, birtar skýrslur og boðað til ráðstefna, en lítið gerst. Nú er mál að láta verkin tala.“

Samfylking og Viðreisn hafa löngum talað um að hækka gjöld á útgerðina og Flokkur fólksins öskrað um nauðsyn hennar. Komi að því að stefna flokkanna rætist verður sama ófremdarástand í sjávarútvegi og vegna dýra lóðaskortsins í Reykjavík. Dæmið ætti að hræða húsnæðismálaráðherrann, styrkjadrottninguna Ingu Sæland. – Hvar ætlar hún að afla fjár til að styrkja ferðaþjónustu og sjávarútveg eftir framkvæmd rústastefnunnar?