14.9.2024 10:32

Skortsstefna í þágu strætó

Þetta eru ekki ný sannindi en hér er skipulega lagt á ráðin um að beita skorti eða ofurgjöldum til þess að venja borgarana af því að nota bílinn sinn.

Hér er litið á samgöngusáttmálann um höfuðborgarsvæðið sem samkomulag um hvert skuli stefnt og um skiptingu framkvæmda milli ríkis og sveitarfélaga. Án slíks samkomulags fulltrúa ríkis og sveitarfélaga gerist ekkert. Dapurlega hlið sáttmálans er að hann er svo umfangsmikill og kostnaðarsamur að framkvæmd hans vex mörgum í augum. Margt er auk þess óljóst því á framkvæmdastigi ræðst mikið af ákvörðunum sem ekki hafa enn verið teknar.

Öllum er augljóst að það kostar stórfé að laga samgöngur á höfuðborgarsvæðinu að nútímanum hvort sem það er gert í samræmi við áætlun sem kölluð er sáttmáli eða eftir öðrum leiðum. Að öllu jöfnu er skynsamlegt að allir sem málið varða komi á gerð heildarramma um framkvæmdir sem snerta margar sjálfstæðar einingar. Aðferðafræði og kostnaðarmat skipta þar vissulega miklu. Kostnaðurinn verður að lokum greiddur af skattgreiðendum og með sérstökum gjöldum.

IMG_0529Septembermorgunn við Reykjavíkurtjörn,

Glöggur lesandi sáttmálans sendi mér tvær klausur úr því sem kannski má kalla smáa letrið í honum. Þar kemur fram að enn eigi eftir að ákvarða stuðningsaðgerðir í þágu „breyttra ferðavenja“ en tilvitnuðu orðin eru eins konar dulmál um atlögu að fjölskyldubílnum í þágu almenningssamgangna eða hjólreiða. Hér er það sem má lesa í sáttmálanum:

8.6.2 Samgöngusamningar og bílastæðastefna

Ríki og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu stefna að samvinnu um frekari stuðningsaðgerðir breyttra ferðavenja með aukinni innleiðingu samgöngusamninga og mótun stefnu í bílastæðamálum. Þessar aðgerðir eru líklegar til að stuðla að breyttum ferðavenjum en erfitt er á þessu stigi að áætla áhrifin.

8.7.1 Bílastæði og bílastæðagjöld

Í skýrslu verkfræðistofunnar Mannvits um leiðir til að efla almenningssamgöngur [23] frá 2018 kemur fram að stefna í bílastæðamálum getur verið áhrifarík aðferð til þess að hafa áhrif á val á ferðamáta. Er bar bent á að niðurstöður ferðavenjukannana í Noregi hafi sýnt fram á að framboð og verð bílastæða við vinnustaði hafi mjög mikil áhrif á það hvaða ferðamáta fólk kýs. [Í] Meistararitgerð Sólrúnar Svövu Skúladóttur frá 2017 [24] var þetta kannað hér á landi. Niðurstaða rannsóknarinnar var m.a. sú að fólk er líklegra til að nota Strætó meira þegar mjög erfitt er að finna gjaldfrjáls bílastæði við þann stað sem oftast þarf að ferðast til.

Þetta eru ekki ný sannindi en hér er skipulega lagt á ráðin um að beita skorti eða ofurgjöldum til þess að venja borgarana af því að nota bílinn sinn til að aka á vinnustað eða reka dagleg erindi.

Undanfarin ár hefur meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur undir forystu Samfylkingarinnar fylgt skortsstefnu í lóðamálum til að knýja fram þéttingu byggðar, m.a. í þágu borgarlínu. Skortsstefnan tekur meira að segja á sig þá mynd að borgin áskilur sér neitunarvald um vöxt nágrannasveitarfélaga.

Skortsstefnan í lóðamálum er undirrót verðbólgu. Skortur bílastæða bitnar á bíleigendum, vinnustöðum og verslunum. Strætó fitnar ekki af skorti.