Skorinorð fyrir siðmenninguna
Í stuttu máli var ræða utanríkisráðherra skorinorð málsvörn fyrir siðmenninguna í samskiptum manna og þjóða.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir
utanríkisráðherra flutti ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna að kvöldi
laugardags 24. september. Innrás Rússa í Úkraínu, umhverfis- og loftslagsmál og
mannréttindi settu svip á ræðuna.
Í tengslum við upphaf allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York efndu bandarísku forsetahjónin til móttöku í American Museum of Natural History í borginni miðvikudaginn 21. september 2022. Þórdís Kolbrún utanríkisráðherra var meðal gesta eins og myndin sýnir.
Ráðherrann sagði að einskis mætti láta ófreistað í stuðningi við þá skipan alþjóðamála sem stuðlaði að samstarfi þjóða og mótast hefði á undanförnum áratugum.
Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) eru tákngervingur þessa kerfis og sagði ráðherrann að þrátt fyrir ýmsa ágalla bæri það höfuð og herðar yfir allar aðrar aðferðir til að leysa ágreining milli ríkja. Lýsti hún fullum stuðningi við hugmyndir framkvæmdastjóra SÞ hvernig ætti að blása nýju lífi í fjölþjóðlega samstarfskerfið svo að það þjónaði framtíðar kynslóðum sem best.
Í beinu framhaldi vék hún að því að ólögmæt og grimmdarleg innrás Rússa í Úkraínu hefði valdið áfalli, minnt óþægilega á hvernig heimurinn gæti orðið fengju eyðileggingaröfl að ráða örlögum þjóða en ekki sköpunarmátturinn. Þórdís Kolbrún sagði:
„Einskær og hrollvekjandi grimmd sem Rússar hafa sýnt og birst hefur á nýlega frelsuðum svæðum [í Úkraníu] er með öllu óskiljanleg. Þar birtist algjört hrun siðmenningarinnar.
Því vil ég árétta, áður en ég fjalla um alþjóðamálin að öðru leyti, að í þágu mannkyns verður Úkraína að sigra. Árás Rússlands verður að hrinda og þeim sem bera ábyrgð á voðaverkum í skjóli innrásarinnar verður að refsa. Óábyrg orð forseta Rússlands undanfarna daga eru napurleg áminning um að sé látið undan hrottum og óaldarlýð verður það aðeins til að ýta undir hrottaskap og óöld.“
Þarna er fast að orði kveðið en að fullu tilefni. Þórdís Kolbrún var ekki síður skorinorð þegar hún ræddi mannréttindi og hlut kvenna í einræðis- og kúgunarríkjum. Til að breyta þróuninni í heiminum til betri vegar yrði að fólk að hafa svigrúm til að rjúfa kyrrstöðu. Hafa frelsi til að segja skoðun sína jafnvel á viðkvæmustu málum, til að stunda listsköpun þótt listaverkin féllu ekki öllum í geð.
„Þetta eru gildin sem verjendur Úkraínu vilja tryggja að börn sín njóti.
Þetta eru gildin sem Sviatlana Tsikhanouskaja berst fyrir í þágu fólksins í Belarús.
Þetta eru gildin sem konur og stúlkur í Afganistan fá ekki notið.
Og það er á grunni þessara gilda sem ekki verður við það unað að Masha Amini hafi látist af barsmíðum í Íran fyrir að bera ekki höfuðklút í samræmi við opinber fyrirmæli.“
Í stuttu máli var ræða utanríkisráðherra skorinorð málsvörn fyrir siðmenninguna í samskiptum manna og þjóða. Skilin milli þjóða sem virða fjölþjóðlegt samstarf reist á alþjóðalögum og hinna hafa því miður orðið skarpari í seinni tíð. Þetta er hættuleg þróun fyrir smáríki sem geta orðið hrottum auðveld bráð. Um þetta snýst stríðið í Úkraínu eins og ráðherrann sagði réttilega: Hrottarnir mega ekki sigra.