8.1.2021 11:47

Skömm Trumps

Hér var í gær sagt að Trump hefði sigað skríl á þinghúsið og risu þá nokkrir upp til andmæla og sögðu orðavalið ósanngjarnt í garð forsetans.

Donald Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseti, viðurkenndi í fyrsta sinn fimmtudaginn 7. janúar að forsetatíð sinni væri að ljúka. Hann sendi frá sér myndband þar sem hann lofaði að standa að „snurðulausri“ embættistöku Joes Bidens 20. janúar.

Trump sætir harðri gagnrýni fyrir hlut sinn í aðför skríls að Bandaríkjaþingi miðvikudaginn 6. janúar. Krafist er aðgerða til að hann geti ekki beitt forsetavaldi þá daga sem hann á eftir í Hvíta húsinu. Ráðherrar segja sig úr stjórn hans og þingmenn sem áður töluðu máli hans snúast gegn honum. Þá er rætt um úrræði til að sækja hann til saka vegna framgöngu hans.

07blog-front-pages-articleLargeÁ nýja myndbandinu var yfirbragð Trumps rólegra en undanfarna daga og hann fordæmdi skrílslætin sem framin voru í hans nafni í þinghúsinu þegar þingmenn komu saman til að staðfesta formlega niðurstöðu kjörmannanna um sigur Bidens. Trump nefndi Biden ekki á nafn í ávarpi sínu á myndbandinu og hann hefur ekki enn óskað eftirmanni sínum til hamingju með kosningasigurinn. Sálfræðingar segja hann í hópi þeirra sem geti ekki viðurkennt eigin ósigur.

Hér var í gær sagt að Trump hefði sigað skríl á þinghúsið og risu þá nokkrir upp til andmæla og sögðu orðavalið ósanngjarnt í garð forsetans. Þeir sem þannig tala eða bera blak af framgöngu Trumps hér á landi ættu að kynna sér hvaða orð valin eru í erlendum fjölmiðlum um hann vegna atbeina hans að árásinni á þinghúsið. Framferði hans er í raun með öllu óskiljanlegt þegar litið er til lýðræðislegra leikreglna.

Mér var bent á að vildu menn leita að samanburði úr Íslandssögunni væri nærtækast að líta til þess sem gerðist 30. mars 1949 þegar kommúnistar og stuðningsmenn þeirra streymdu af útifundi í porti Miðbæjarskólans út á Austurvöll og réðust á Alþingishúsið þar sem þingmenn ræddu aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO). Kynnt var undir baráttuanda mótmælenda á útifundi, eins og Trump gerði núna, og síðan var mannfjölda beint til árásar á þinghúsið.

Hér hafði lögregla með varaliði nægan viðbúnað til að hrinda árásinni, meðal annars með táragasi. Í Washington kölluðu menn ekki út þjóðvarðliðið vegna útifundar Trumps, til þess þurfti samþykki varnarmálaráðuneytisins og þar hræddust skjólstæðingar forsetans að gera nokkuð sem honum mislíkaði.

Herforingjar vilja halda sig víðsfjarri pólitískum flokksátökum. Æðsti yfirmaður hersins baðst afsökunar fyrir nokkrum mánuðum þegar tekin var af honum áróðursmynd í þágu Trumps. Þá var þjóðvarðliðið kallað út til að ryðja forsetanum braut frá Hvíta húsinu að kirkju þar sem hann hélt Biblíu á loft sér til ágætis en hermenn héldu mótmælendum fjarri.

Þörf fyrir ríka öryggiskennd er grunnþáttur í lífi Bandaríkjamanna eins og sést af mikilli byssueign þeirra. Trump „spilaði“ á þessa tilfinningu, til dæmis með kosningaloforðinu um landamæramúr. Þegar hann fer eftir fjögurra ára stjórn býr þjóðin við öryggisleysi: vegna árásar á þinghúsið, vegna ráðaleysis við bólusetningu gegn COVID-19-faraldrinum og vegna innbrots Rússa í viðkvæm tölvukerfi. Forsetinn fráfarandi vill helst leiða þetta allt hjá sér, óleysti vandinn samræmist ekki sjálfsmynd hans! Stuðningsblað Trumps, The Wall Street Journal, sagði í leiðara daginn eftir þinghúsárásina: Í guðanna bænum, farðu!