24.9.2024 10:50

Skömm fréttastofu RÚV

Án þess að biðjast afsökunar viðurkennir útvarpsstjóri að fréttamenn hafi haft frjálsræði til að segja það sem þeim datt í hug við gerð andlátsfrétta en nú verði sett „formleg viðmið“ við ritun þeirra.

Hér hefur því oftar en einu sinni verið fullyrt að frásagnir, fréttamat og fréttir á vegum fréttastofu ríkisútvarpsins (RÚV) beri þess merki að þar fari menn fram eftir því sem þeim blæs í brjóst þá stundina í stað þess að gæta hlutlægra reglna um hvað sé í raun boðlegt í fréttatíma.

Vegna fjarveru erlendis heyrði ég ekki hvernig fréttastofan sagði frá andláti frænda míns, Benedikts Sveinssonar. Ég sé hins vegar á skrifum að frásögnin hefur einkennst af meiri lágkúru en jafnvel „vinir“ RÚV umbera.

IMG_0625-1-

Bloggarinn Páll Vilhjálmsson, sem veitir RÚV meira aðhald en nokkur annar og á þann hátt að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur þeim sem hann gagnrýnir ekki tekist að kveða hann í kútinn, segir á bloggi sínu í dag (24. september) að rætnar athugasemdir RÚV um Benedikt látinn hafi þjónað þeim „tilgangi að ófrægja og meiða“.

Páll birtir bréf til Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra frá manni sem starfaði á RÚV og segist hafa „borið sterkar taugar til stofnunarinnar og nú í seinni tíð varið hana af fremsta megni, þegar að henni hefur verið vegið. Þar verða nú kaflaskil þó að léttvæg geti talist.“

Kaflaskilin urðu þegar hann heyrði það sem fréttamaður hafði fram að færa frá eigin brjósti þegar „greint er frá andláti sómakærs manns á níræðisaldri sem hefur æði margt af mörkum lagt í þjóðarþágu á starfsævi sinni“.

Hlustendur voru í tilefni andláts Benedikts minntir á mál sem fréttastofunni voru einstaklega kær á sínum tíma: (1) Að Benedikt skrifaði upp á meðmæli með umsókn dæmds kynferðisafbrotamanns um uppreist æru eftir að maðurinn hafði tekið út refsingu sína. Var í raun um hreint formsatriði að ræða sem var blásið upp á þann hátt að til stjórnarslita kom. Stjórnarslitaflokkurinn varð síðan að engu. (2) Kaup á smáræði í Íslandsbanka í nafni Benedikts í útboði samkvæmt reglum alþingis.

Þetta urðu pólitísk stórmál án þess að til þess væri annað tilefni en að koma Bjarna, syni Benedikts, í vanda vegna ráðherraembætta sem hann gegndi.

Í fyrrgreindu bréfi sem Páll Vilhjálmsson birtir segir um frásögn RÚV:

„Skömm Ríkisútvarpsins er mikil og á henni bera stjórn, útvarpsstjóri og fréttastjóri ótvíræða ábyrgð. Lítilsigldur fréttamaðurinn, höfundur textans, er svo aumkunarverður að ekki er einu sinni hægt að eyða á hann frekari orðum.“

Í svari við þessu bréfi sagði Stefán Eiríksson útvarpsstjóri:

„Fréttastofan hefur fengið þónokkrar athugasemdir og kvartanir út af efnistökum og framsetningu umræddrar fréttar. Yfir þær athugasemdir hefur verið farið og texti í veffrétt var lagfærður í kjölfarið. Þá hefur fréttastjóri ákveðið að bregðast við framangreindri gagnrýni með því að setja saman formleg viðmið um ritun og birtingu andlátsfrétta, efnistök þeirra og framsetningu.“

Án þess að biðjast afsökunar viðurkennir útvarpsstjóri að fréttamenn hafi haft frjálsræði til að segja það sem þeim datt í hug við gerð andlátsfrétta en nú verði sett „formleg viðmið“ við ritun þeirra.

Við sem þekktum Benedikt vitum að þar fór vinsæll, grandvar maður, mannasættir sem vildi öllum vel en var fastur fyrir og fylginn sér þegar við átti.