24.2.2021 9:36

Skólamunasafn í hættu

Það ber vott um virðingar- og skilningsleysi að stjórnendur skólamála í Reykjavík yppti öxlum yfir framtíð skólamunasafnsins og bendi á aðra innan borgarkerfisins.

Í Morgunblaðinu í dag (24. febrúar) segir að fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna í umhverfis- og heilbrigðisráði Reykjavíkur hafi með bókun 17. febrúar 2021 gagnrýnt Reykjavíkurborg sjálfa fyrir landfyllingu við Laugarnes í apríl 2019 án fullnaðarmats á umhverfisáhrifum hennar.

Þegar Hollvinafélag Austurbæjarskóla lýsir undrun yfir kröfu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar um að fjarlægja skuli skólamunasafn í risi skólans svarar sviðsstjórinn, Helgi Grímsson, kuldalega á mbl.is þriðjudaginn 24. febrúar:

„Þetta safn er ekki á forræði borgarinnar heldur er þetta áhugahópur sem að hefur safnað þarna munum sem að tengjast skólastarfi og við höfum hvatt til þess að þessir aðilar séu í samstarfi við Borgarsögusafn þannig að það sé verið að varðveita það sem tengist skólastarfi í borginni.“

Það er síður en svo einsdæmi að framtak áhugafólks verði kveikjan að merkilegu safni og er nærtækt að minna á Skógasafn í því sambandi. Allt sem þar hefur gerst má rekja til áhuga og framtaks Þórðar Tómassonar sem verður 100 ára í ár og lætur enn að sér kveða í þágu safnsins.

Hefði framtaki Þórðar eða annarra áhugamanna um varðveislu gamalla muna verið mætt með því kerfissjónarmiði sem einkennir viðhorf sviðsstjórans væri þjóðin snauðari að gömlum munum. Hann áttar sig greinilega ekki á gildi þess að kynnast megi rótum farsæls skólastarfs Austurbæjarskóla upp undir rjáfri í skólahúsinu sjálfu heldur segist eiga réttmæta kröfu til rýmisins sem hýst hefur skólamunasafnið með leyfi skólastjóra síðan 2015. Skólastjórinn virðist hins vegar nú hafa sama hug til safnsins og sviðsstjórinn.

1258930Bækur í skólamunasafninu vekja minningar hjá mörgum (mynd mbl.is).

Það ber vott um virðingar- og skilningsleysi að stjórnendur skólamála í Reykjavík yppti öxlum yfir framtíð þessa safns og bendi á aðra innan borgarkerfisins.

Stjórn hollvinafélags skólans fór á árinu 2020 í „mikla herferð“, talaði við fólk frá borginni og söfnum hennar, fékk fólk frá Borgarsögusafni og Borgarskjalasafni í heimsókn til að tryggja framtíð safnsins. Ætti að opna það almenningi gæti „það auðvitað ekki verið þarna, við höfum alltaf vitað það. En það var hvergi smuga, enginn hafði pláss fyrir okkur,“ segir Dagný Marinósdóttir, formaður hollvinafélagsins, á mbl.is. Þau hafi vonað að „safnið fengi að vera í risinu áfram, þangað til einhverjar aðrar leiðir opnuðust til að setja upp almennilegt skólamunasafn“. Nú blasir við að sú von verði að engu.

Hollvinafélagið sendi opið bréf til Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, Borgarsögusafns, Borgarskjalasafns, skóla- og frístundasviðs borgarinnar og fleiri tengdra aðila.

Opinbert svar sviðsstjórans liggur fyrir: Hypjið ykkur annað, mitt svið á þetta pláss, talið við safnasviðið!

Með einu pennastriki er unnt að eyðileggja skólamunasafnið – gerist það vegna kerfissjónarmiða? Bóka síðan meirihlutamenn í borgarstjórn um eyðilegginguna eftir að skaðinn er skeður? Meirihlutinn sérhæfir sig í yfirklóri eins og dæmin sanna.