5.5.2025 10:09

Skólamatsblekking afhjúpuð

Skólamatið sýnir að nemendur í bekknum eru almennt með fínar einkunnir og í því mati gefur ekkert til kynna að nemendur séu langt á eftir í námi. Niðurstöður úr námsmatibu eru einfaldlega í hrópandi ósamræmi við skólaeinkunnirnar.

Undanfarin ár hefur menntamálaráðuneytið verið limlest. Þetta hefur bæði verið gert með því að brjóta ráðuneytið í marga parta við stjórnarmyndanir og einnig undir forystu ráðherra. Ráðuneytið veitir ekki lengur markvissa forystu í menntamálum og pólitísk ábyrgð á málaflokknum er engin.

Morgunblaðið hefur dregið upp skýra mynd af því hvernig mál hafa þróast á verri veg frá 2018 þegar menntamálaráðherra skipaði starfshóp um það sem kallað er samræmt námsmat. Samstaða var í hópnum um að ekki ætti að nýta niðurstöður samræmdra könnunarprófa í grunnskóla sem inntökupróf í framhaldsskóla.

Síðan 2021 hafa ekki verið haldin samræmd próf í grunnskólum landsins. Unnið hefur verið að svonefndum matsferli í stað prófanna. Ekki verði samræmt lokapróf í 10. bekk og áfram verði miðað við skólaeinkunnir þegar sótt sé um framhaldsskóla.

Fyrir alþingi liggur nú frumvarp um þetta efni þar sem á meðal annars að lögfesta heimildir til að minnka enn gildi hefðbundins náms við innritun í framhaldsskóla.

Screenshot-2025-05-05-at-10.07.29Morgunblaðið 6. maí 2025.

Hermann Austmar, faðir stúlku í 7. bekk Breiðholtsskóla, fór fram á að framkvæmt yrði námsmat í stærðfræði og íslensku til að átta sig á stöðu dóttur sinnar og bekkjarsystkina hennar. Niðurstöður í námsmatinu eru ekki í neinu samræmi við niðurstöður skólamatsins.

Skólamatið sýnir að nemendur í bekknum eru almennt með fínar einkunnir og í því mati gefur ekkert til kynna að nemendur séu langt á eftir í námi. Niðurstöður úr námsmatibu eru einfaldlega í hrópandi ósamræmi við skólaeinkunnirnar.

Í blaðinu segir Hermann að tvennt komi til greina. Annars vegar að námsmatið hafi ekki verið lagt fyrir með réttum hætti og hins vegar að skólinn sé einfaldlega búinn að gefa nemendum allt of háar einkunnir miðað við þekkingu þeirra á námsefninu sem skólinn á að vera að kenna þeim.

Hermann telur mikla fölsun í gangi, það sem blaðamaðurinn kallar einkunnaverðbólgu í skólanum.

Hann segir engan hafa verið reiðubúinn að viðurkenna að nemendurnir stæðu ekki vel námslega. Skólinn viti að það skorti færni. Enginn úr skólanum hafi vakið máls á því við foreldrahópinn. Hann hafi sjálfur orðið „toga þetta upp úr“ skólanum og kerfinu. Það sé ekki hægt að treysta skólanum sem menntastofnun.

Þetta kemur heim og saman við þá skoðun að leyndin sem gripið hefur verið til í skólakerfinu auðveldi svona blekkingar gagnvart nemendum og foreldrum. Leyndin er aðför að hag þeirra sem njóta þjónustu skólanna og vilja geta treyst því að hún sé veitt.

Til hvers er hannaður matsferill án mælanlegs námsárangurs og nauðsynlegrar árangursgreiningar á nýtingu á opinberum fjármunum? Þessu verður menntamálaráðherra að geta svarað. Er ráðherrann talsmaður einkunnaverðbólgu og þess að eitt dýrasta skólakerfi í heimi skili sífellt lélegri námsárangri? Og að reynt sé að fela það með leyndarhyggju?