Skoðanakannanir ráða ekki för
Í stað þessa kvörtunartóns ætti blaðið að setja fram málefnaleg sjónarmið um það hverju þarf að svara til að lesendur átti sig á um hvað málið snýst.
Hér var vikið að því gær hve undarlegt væri að spyrja um það árið 2019 hvort Íslendingar vildu vera undanþegnir orkulöggjöf ESB og gefa þannig til kynna að umræðurnar um þriðja orkupakkann snúist um það. Spurning um þetta átti við á árunum 2000 til 2003 þegar stefna Íslands í þessum málum var mótuð og ákveðið að breyta íslenskum raforkulögum í samræmi við löggjöfina sem gildir á sameinaða orkumarkaðnum innan EES-svæðisins.
Í upphafi nutu Íslendingar fyrirvara sem þeir gerðu sjálfir að engu en segja má að núverandi ríkisstjórn sé að innleiða að nýju með aðferðinni sem hún beitir vegna þriðja orkupakkans. Þá vill ríkisstjórnin setja ríkari skorður en verið hafa óski einhver heimildar til að leggja sæstreng. Það verður ekki gert án sérstakrar löggjafar nái stefna stjórnarinnar fram að ganga. Þá ákvörðun er auðvelt að bera undir þjóðina í atkvæðagreiðslu.
Málið sem hér um ræðir snýst um staðreyndir en ekki niðurstöður skoðanakannana. Þeir sem ætla að láta kannanir ráða hafa ekki fast land undir fótum.
Í leiðara Morgunblaðsins í dag er hvatt til þess að niðurstaða skoðanakannana ráði för í þessu máli og þar (20. júní) segir:
„Í umræðunni um þriðja orkupakkann hafa ýmis orð verið látin falla, meðal annars um þekkingarleysi þeirra sem vilja ekki pakkann. Það er óboðlegur málflutningur sem vonandi heyrir sögunni til.“
Í stað þessa kvörtunartóns ætti blaðið að setja fram málefnaleg sjónarmið um það hverju þarf að svara til að lesendur átti sig á um hvað málið snýst.
Málamiðlun náðist á þingi um að fresta afgreiðslu þriðja orkupakkans til loka ágúst. Þetta mál hefur síðan 2010 gerjast í íslenska stjórnkerfinu en varð ekki að hitamáli fyrr en í mars 2018 eftir að andstæðingar þriðja orkupakkans í Noregi sáu fram á að verða undir í stórþinginu.
Í Noregi er þetta kallað ACER-málið, það er kennt við fagstofnun ESB, ACER, sem annast eftirlit með því að raforkukerfi innan ESB séu samkeyrð með hámarksafköst að leiðarljósi.
ACER hefur ekkert að segja um Ísland þótt umræður hér, undir norskum áhrifum, beinist af og til að þessari stofnun. Má helst skilja að hún sé ógnun við fullveldi Íslands. Þriðji orkupakkinn leiðir orkulindir eða orkuframleiðslu Íslendinga ekki undir vald ACER, í honum felst ekki framsal á fullveldi þjóðarinnar.
Sé þetta talin „óboðlegur málflutningur“ má óska eftir að það sé rökstutt á annan veg en með vísan í niðurstöðu skoðanakannana.
Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir sýndu á liðnum vetri ríkan vilja til að koma til móts við ótta og gagnrýni á þriðja orkupakkann. Aðgerðirnar leiddu meðal annars til þess að lögfræðilegu ráðgjafarnir Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst féllu frá fyrirvörum sínum vegna stjórnarskrárinnar.
Nú segja efasemdarmennirnir að meira þurfi að gera til að koma til móts við þá. Nota eigi tímann í sumar til þess. Háværustu í hópi þeirra unnu að innleiðingu þriðja orkupakkans á árunum 2014 til 2016 og samþykktu meira að segja innleiðingu hans að hluta í flýtimeðferð á alþingi. Hvað er það sem gerst hefur síðan?
Í fyrrnefndum leiðara Morgunblaðsins segir að það þurfi „dug og forystuhæfileika til að rétta kúrsinn þegar ratað hefur verið í ógöngur“. Þetta eru ekki ný sannindi. Til að rétta kúrsinn er nauðsynlegt að vita hvar menn eru staddir þegar til þess er gripið. Í þessu máli væri æskilegt að komast að raun um það. Sameiginlega staðarákvörðun vantar, hún er ekki reist á skoðanakönnunum.