4.8.2020 10:10

Skoðanafréttir taka völdin

Þegar Fox, The New York Times og MSNBC, beri hlutdrægni sína utan á sér geti Bandaríkjamenn hætt að gera sér gyllivonir um hreinleika blaðamennskunnar.

Í Bandaríkjunum hóf Gallup að mæla afstöðu almennings til fjölmiðla árið 1972 og þá sögðust 68% treysta trúverðugleika þeirra. Árið 1976 var þessi tala 72%, þetta var eftir Watergate-málið og þegar kvikmyndin All the President’s Men var frumsýnd.

Síðan tók að halla undan fæti hjá fjölmiðlunum og 1997 var talan komin niður í 53% og í september í 41%. Jeff Jacoby, dálkahöfundur hjá The Boston Globe, segir ekki erfitt að skýra þessa þróun. Blaðamenn og miðlarnir hafi að verulegu leyti sagt skilið við óhlutdræga fréttamennsku. Það viðhorf ríki að blaðamenn sýni sína bestu hlið þegar þeir af ásetningi hætti að látast vera hlutlausir og viðurkenni að siðferðileg skylda þeirra sé að segja sannleikann, segir Jacoby með vísan til orða Jorge Ramos, áhrifamikils fréttamanns hjá Univison árið 2014.

2Picture-1Þetta súlurit sýnir hvernig afstaða Bandaríkjamanna hefur breyst í garð einstakra starfsgreina á COVID-19-tíma.

Jacoby segir að nú á tímum sé virðingin fyrir hlutlægni í fréttum jafnvel enn minni en fyrir sex árum. Í þess sem áður var þegar blaðamenn lögðu áherslu að allar staðreyndir væru réttar skipti nú mestu að „narratívan“ – frásagan – sé rétt. Af þessu leiði að fjölmiðlar fari hvorki í felur né afneiti að þeir halli sér í eina átt frekar en aðra: CNN og The Washington Post halli sér verulega til vinstri en Fox News til hægri. Sé horft á „fréttir“ viti allir nema fávísustu áhorfendur að þeir fái aðeins að kynnast annarri hlið mála.

Afstaða bandarísks almennings til fjölmiðla hefur ekki breyst til betri vegar við COVID-19-faraldurinn. Í mælingu Gallup í byrjun mars 2020 fengu sjúkrahús, skólar og stjórnmálamenn góða útkomu fyrir viðbrögð við faraldrinum en hreinn meirihluti – 55% – lýsti óánægju með framlag fjölmiðla. Staðan hefur haldið áfram að versna. Fyrir rúmri viku birtist niðurstaða í Axios/Harris könnun sem sýnir að traust í garð flestra starfsstétta hefur aukist meðal Bandaríkjamanna: um 28% í garð tæknigeirans; 35% í garð matvöruverslana og 47% í garð lækna/hjúkrunarfræðinga/sjúkrahúsa. Traust í garð fjölmiðla minnkaði hins vegar um 5% og um 7% í garð flugfélaga sem ráku lestina.

Jeff Jacoby segir að litlar líkur séu á að þetta breytist. Æ fleiri blaðamenn líti á sig sem liðsmenn í menningarstríði og hugmyndafræðileg hollusta þeirra birtist í því sem frá þeim kemur, ekki aðeins í skoðanadálkum, þar sem það sé eðlilegt, heldur einnig á fréttasíðunum. Það sé greinilega markaður fyrir litaða blaðamennsku af þessu tagi megi marka fjölgun áskrifta að stafrænum miðlum. Hún njóti hins vegar hvorki mikils trausts né virðingar.

Sá tími er liðinn segir Jacoby þegar Walter Cronkite, sem stýrði kvöldfréttum CBS-sjónvarpsstöðvarinnar í tuttugu ár, var talinn „trúverðugasti Bandaríkjamaðurinn“. Nú sé litið á þá sem stjórna sjónvarpsfréttum og ritstjóra sem hlutdræga baráttumenn, holla stjórnmálaviðhorfi, þeim sé ekki lengur treyst fyrir sanngjarna og óhlutdræga blaðamennsku. Það sé kannski að sumu leyti til bóta. Þegar Fox, The New York Times og MSNBC, beri hlutdrægni sína utan á sér geti Bandaríkjamenn hætt að gera sér gyllivonir um hreinleika blaðamennskunnar og viðurkennt að óhlutdræg sannindi binda ekki frekar hendur fréttamanna en höfunda auglýsinga eða pólitískra ráðgjafa.