Skjátextar á vitvélaöld
Nú er unnt að nota vélvit til að lesa það sem veðurfræðingar segja okkur þegar þeir benda á veðurkortin í ríkissjónvarpinu. Textinn ræðst af því hve skýrmæltur veðurfræðingurinn er.
Baldur Símonarson lífefnafræðingur heldur úti póstlista og miðlar þeim sem á honum eru fróðleik um væntanlega tónlistar- og menningarviðburði bæði sem efnt er til hér eða sýndir í sjónvarpsstöðvum og fluttir í útvarpi. Fólk kemst á listann með því að biðja um það í tölvupósti til Baldurs (bsim@hi.is). Engin skilyrði eru sett.
Baldur flytur áskrifendum, sem skipta hundruðum, einnig gagnlegan fróðleik í bréfum sínum. Á skírdag gaf hann Boga Ágústssyni hrós vikunnar fyrir að geta þess í Heimsglugganum í að sjá megi sjónvarpsefni á DR1 og DR2 með því að nota ókeypis smáforrit eða app, drtv, sem auðvelt er að nálgast og opna. Maður skráir sig, býr til lykilorð og fylgir fyrirmælum sem gefin eru til innskráningar.
Baldur segir einkum þakkarvert hve auðvelt sé að virkja skjátexta sem gerðir séu með vélviti eða gervigreind. Þá segir hann orðrétt:
„Mörg okkar heyra ekki vel. Flest eru vel læs á dönsku, en það er staðreynd að afar erfitt er að skilja talaða nútímadönsku, nema fólk sem er komið yfir sextugt. Um tíma var unnt að fá skjátexta á norrænu stöðvunum [hér á landi] með því að horfa beint á línulega útsendingu og ýta á 888 á fjarstýringu. Nú hefur því verið hætt. Fyrst komu skilaboð á skjánum um að það væri bilun, síðan hvarf sú skýring. Tækniþjónusta Símans (800 7000) kunni ekki svör við vandamálinu, en ég hef alltaf fengið frábæra, vingjarnlega og kurteisa þjónustu þar. Ég finn hinsvegar ekkert á heimasíðu Símans um þetta.“
Undir orð Baldurs um hvarf textavarpsins skýringarlaust á norrænu stöðvunum í myndlykli Símans skal tekið. Ég hef eins og Baldur átt erindi við tæknideild Símans til að leysa úr vandræðum og fengið mjög góða þjónustu. Eitt sinn spurði ég einmitt um skortinn á textun á norrænu stöðvunum og var greinilegt að fleiri höfðu spurt, svarið var að boðum yrði komið til þeirra sem væru að vinna í málinu.
Síminn skuldar okkur, dyggum viðskiptavinum, skýringar á þessari skertu þjónustu. Á fyrrgreindu appi, drtv, er auðvelt að ná skjátexta sem sýnir talað orð, neðst í horni hægra megin er <=> og ef slegið er á línurnar tvær birtist textinn. Af hverju er ekki unnt að beita þessari tækni á sjónvarpsskjánum? Virkar vélvitið ekki þar?
Nú er unnt að nota vélvit til að lesa það sem veðurfræðingar segja okkur þegar þeir benda á veðurkortin í ríkissjónvarpinu. Textinn ræðst af því hve skýrmæltur veðurfræðingurinn er. Vélvitið hvetur þannig til aukins skýrleika í framburði. Fréttir og íþróttafréttir eru einnig með texta en ekki Kastljós? Hvað veldur?
Hér heldur fyrirtækið Miðeind úti vefsíðunni Málstað með margvíslegri þjónustu undir heitinu Málfríður, Hreimur og Erlendur. Þar er nú þessi þjónusta meðal annars í boði:
„Þannig er hægt að senda upptöku af fundi inn í Hreim til talgreiningar og fá þannig handrit fundarins með tímakóðum. Þá er hægt að senda handritið til samantektar Málfríðar og fá hnitmiðaða fundargerð. Loks er hægt að senda fundargerðina til Erlends og fá hana þýdda á fjölmörg tungumál.“
Hvers vegna hverfa skjátextar í myndlykli Símans á þessari vitvélaöld?