Skipulag gegn dagsbirtu
Dagsbirtan á undir högg að sækja í nýbyggingum í Reykjavík á meðan meirihluti borgarstjórnar breytir ekki um stefnu í skipulagsmálum.
Eftir að fréttir bárust af geymslu- og skuggaveggnum á Álfabakka 2 taka æ fleiri kunnáttumenn opinberlega til máls um þau einkennilegu ósköp að markvisst hafi verið staðið þannig að skipulagi í höfuðborginni að halda sólar- eða dagsbirtu frá íbúum húsa við hönnun þeirra.
Í viðtali við Vísi 18. desember sagði Ásta Logadóttir, verkfræðingur hjá Lotu og sérfræðingur í birtu og lýsingu í húsum, dagsbirtuna oft gleymast við hönnun húsa. „Við erum svolítið að gleyma okkur og regluverkið passar ekki upp á okkur nægilega vel,“ sagði hún um leið og hún taldi hægt „að þétta byggð á góðan hátt“.
Hún sagði að í nágrannalöndum okkar væru reglugerðir með ákveðnum kröfum um dagsbirtu og dagsljós í byggingum. Það sama gilti ekki hér. Nú væri þó í samráðsgátt tillaga að breytingu á byggingarreglugerð þar sem talað væri um ljósvist og útsýni. Ætti reglugerðin að öðlast gildi 1. mars. Mestu skipti þó að það kæmi fram krafa um dagsljós í byggingarreglugerð. Þá yrði ekki unnt að byggja „svona rosalega þétt og rosalega hátt“.
Nú er það svo að leyfi íslenskar sérreglur að hér sé byggð skipulögð og hús hönnuð á svipaðan hátt og gert er í suðlægum sólarlöndum til að takmarka sólarljós vegna ofurhita af miklu sólskini segir heilbrigð skynsemi að önnur lögmál ættu að gilda við húsagerð hér. Hafa arkitektar verið sviptir frelsi til að nýta menntun sína í þágu dagsbirtunnar?
Græni veggurinn við Álfabakka (mynd: mbl.is/Karitas).
Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins var 4. janúar rætt við arkitektinn Rafael Campos de Pinho frá Brasilíu. Hann hefur búið hér í tæpa tvo áratugi og telur að á þeim tíma hafi borgarskipulag í Reykjavík þróast í öfuga átt með of mörgum stórum fjölbýlishúsum á kostnað millistórra húsa eins og til dæmis risu í Hlíðunum fyrir 70 til 80 árum.
Kuldalegar og stórar kassalaga byggingar án tengsla við ríka hefð Íslendinga fyrir hlýlegum arkitektúr á mannlegum skala ráði ferðinni í borginni. „Það er dapurlegt að sköpunin og frumleikinn sem Íslendingar eru þekktir fyrir skuli ekki endurspeglast í borgarlandslaginu,“ segir Rafael.
Reglur sem kalla á byggingar af þessu tagi verða ekki til án pólitískra ákvarðana. Undanfarna áratugi hafa forystumenn Samfylkingarinnar í skipulagsmálum Reykjavíkur barist með fulltrúum Pírata og Viðreisnar fyrir slíkum reglum og ákveðið að byggt skuli í samræmi við þær. Þessi stefna hefur ekki aðeins ýtt dagsbirtunni til hliðar heldur einnig ýtt undir ofurhátt fasteignaverð. Hún er sögð í þágu lífsstíls án bíls og borgarlínu.
Álfabakkadæmið sýnir að stjórnendur byggingarmála í Reykjavík ýta hagsmunum almennra borgara til hliðar vegna skipulagsstefnu gegn dagsbirtu. Síðan þykjast allir sem ábyrgðina bera koma af fjöllum og láta jafnvel eins og þetta gerist sjálfkrafa.
Dagsbirtan á undir högg að sækja í nýbyggingum í Reykjavík á meðan meirihluti borgarstjórnar breytir ekki um stefnu í skipulagsmálum. Stjórnartíð þessa fólks verður minnst fyrir skugga og myrkvun í þágu borgarlínu sem aldrei varð.