Skimun vegna skimunar vekur ugg
Heilbrigðisáðuneytið fór ekki að ráðum starfshópa, embættis landlæknis eða eigin verkefnisstjórnar við undirbúning og framkvæmd tilfærslunnar.
Í júlí 2021 fól Læknafélag Íslands starfshópi, undir forystu Reynis Tómasar Geirssonar fyrrv. yfirlæknis og prófessors, að yfirfara breytingar sem gerðar höfðu verið á skipulagi og framkvæmd skimunar fyrir leghálskrabbameini. Skimunin hafði þá verið á vegum Krabbameinsfélags Íslands í meira en hálfa öld en var flutt með ákvörðun heilbrigðisráðherra frá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins til nýrrar Samhæfingarmiðstöðvar krabbameina á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Það er álit starfshópsins að heilbrigðisráðuneytinu og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefði átt að vera ljóst að vandaðri undirbúning og mun meiri tíma hefði þurft vegna þessa umfangsmikla verkefnis og til að hindra rof á þjónustunni sem fólst í leitarstarfi Krabbameinsfélagsins. Ráðuneytið fór ekki að ráðum starfshópa, embættis landlæknis eða eigin verkefnisstjórnar við undirbúning og framkvæmd tilfærslunnar.
Á blaðamannafundi 29. mars þegar niðurstaða starfshópsins var kynnt, sagði formaður hópsins að ekki hefði fengist nein skýring á því hvers vegna framkvæmd þessa máls hefði þurft að fara svona hratt. Í fréttum segir jafnframt að nú standi vonir til þess að skimunin sé að komast í lag og nýtist til þess að efla heilsu kvenna eins og fyrr.
Mynd af vefsíðu ruv.is
Á bls. 27 í skýrslunni er þessi texti skáletraður:
„Framkvæmdinni má líkja við að byggja hús á grunni annars eldra húss, þar sem margt var gott og mátti nýta í nýbygginguna, en þarfnaðist endurnýjunar. Það var samt illa kannað þegar nýir eigendur tóku yfir. Ekki var metið hvað mátti nýta úr grunninum eða fyrri byggingu eða hvernig það yrði gert. Tillögur og teikningar voru ekki tilbúnar, enginn arkitekt, byggingaáætlanir óljósar, byggingastjórinn ráðinn til þess að sjá um að sandur, sement, skóflur og hjólbörur væru keyptar, og semja við verktaka um hluta framkvæmdanna. Fáir ráðnir til vinnu. Enginn byggingafulltrúi til eftirlits. Eftirlit á hendi aðila sem tengdist framkvæmdinni. Einungis tekin ákvörðun með óljós markmið um nýja byggingu og gefin fyrirmæli um að byrja á verkinu. Flest þar á milli vantaði.“
Í þessum orðum er lýst ótrúlega lélegri aðferð við stjórn framkvæmda. Dæmisagan á að lýsa betur fyrir almennum lesanda hve illa var staðið að öllu varðandi þessa færslu á verkefni frá einkaaðila til ríkisins, verkefni sem snerti líf og heilsu margra einstaklinga. Lokaábyrgðin var hjá heilbrigðisráðuneytinu þar sem þeirri stefnu var fylgt af dæmalausri hörku á kjörtímabilinu 2017 til 2021 að treysta sem best miðstýrt forræði ríkisins á öllum þáttum heilbrigðisþjónustunnar.
Í kynningu á nýlegri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2022 til 2026 segir:
„Rekstrarframlög til heilbrigðismála hafa aukist mikið og verða framlög til rekstrar orðin tæplega 258 ma.kr. á árinu 2022.“
Alls eru um 260 milljarðar króna í ár á forræði ráðuneytis sem sættir sig við þá stjórn verkefnis sem lýst er þessari í skýrslu á vegum Læknafélags Íslands. Þessi skimun starfshópsins vekur ótta um að víðar sé pottur brotinn innan þessa fjölþætta, viðkvæma og dýra kerfis.