4.10.2017 10:29

Skattastjórn í kortunum

Við myndun ríkisstjórnar VG, Samfylkingar og Pírata verður ágreiningur í skattamálum ekki vegna krafna um lækkun skatta heldur um það hvort allir flokkarnir nái fram hækkunaráformum sínum.

Þegar Steingrímur J. Sigfússon, þáv. formaður VG, varð fjármálaráðherra 1. febrúar 2009 sneri hann við blaðinu í afstöðu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, aðildar að Evrópusambandinu og samninga við Breta og Hollendinga vegna Icesave-skuldanna. Hann breytti hins vegar ekki um stefnu í skattamálum og með setninguna „það varð hrun“ innleiddi hann sósíalíska stefnu í skattkerfið. Hann lagði á auðlegðarskatta og gekk freklega gegn þeim sem hann taldi helstu óvini sósíalismans í landinu. Hann sagði allt í lagi að ganga á eignir fólks, það gæti ekki annað en borgað af því að fjármagnshöft hindruðu að flytti með fé sitt til annarra landa.

Nú stefnir í vinstri stjórn undir forystu VG með aðild Samfylkingar og Pírata.

Peningar

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, bendir í grein í Morgunblaðinu í dag, 4. október, á það sem í vændum er verði þessi vinstri stjórn mynduð. Hann segir:

„Kjósendur þurfa ekki að velkjast í neinum vafa um fyrirætlan vinstri flokkanna, komist þeir í ríkisstjórn að loknum kosningum: Skattar og álögur á einstaklinga og fyrirtæki munu hækka. Fyrirheitin (hótanirnar) liggja fyrir. VG lofar nær 334 milljörðum í auknar álögur á fimm árum en Samfylkingin „aðeins“ 236 milljörðum. [...]

Í andsvörum á þingi upplýsti fulltrúi Vinstri grænna félaga sinn í Samfylkingunni um eftirfarandi: „Ég get þó upplýst háttvirtan þingmann um að það liggur fyrir að við höfum rætt um tekjuskatt, þ.e. þrepaskipt tekjuskattskerfi. Við höfum talað um auðlegðarskatt, auðlindagjöld, fjármagnstekjuskatt, kolefnisgjald, gjöld á ferðaþjónustu, bætta skattheimtu, sykurskatt o.s.frv. Þetta er ekkert nýtt í málflutningi Vinstri grænna og það hefur í sjálfu sér ekkert breyst frá því við vorum saman í ríkisstjórn hvar við viljum helst taka tekjurnar og setja þær niður.“

Við myndun ríkisstjórnar VG, Samfylkingar og Pírata verður ágreiningur í skattamálum ekki vegna krafna um lækkun skatta heldur um það hvort allir flokkarnir nái fram hækkunaráformum sínum.

Í Frakklandi kynnti François Hollande nýkjörinn forseti sósíalista hækkun skatta, sem mætti kalla auðlegðarskatta, sumarið 2012 í 75%. Þetta varð til þess að fjöldi eignamanna mótmælti með fótunum, flutti úr landi eða nældi sér í nýjan ríkisborgararétt. Molnaði fljótt undan áformum forsetans sem hafði alls enga burði til að koma á nauðsynlegum breytingum í Frakklandi í þágu hagvaxtar.