Skammlíf stefnuræða
Sé litið yfir mánuðina tvo frá því að ræðan var flutt er erfitt að rökstyðja að hún hafi elst vel. Samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu á alþingi er til dæmis í molum.
Nú eru tveir mánuðir frá því að Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra flutti fyrstu stefnuræðu sína (10. febrúar) og sagði samstiga ríkisstjórn ganga til verka með nýju verklagi enda hefðu þau verið „kosin til að leiða breytingar“. Hún vænti gæfuríks samstarfs á alþingi milli stjórnar og stjórnarandstöðu og þvert á flokka.
Þau vissu að verkin töluðu. Þau hefðu virkjað þjóðina með sér, það hefði „skilað sér í 10 þúsund tillögum um hagsýni í ríkisrekstri, frá almenningi, atvinnurekendum, stéttarfélögum og stjórnendum og starfsfólki hins opinbera“. Verkefnið væri „þegar farið að skila árangri með því að seytla um stjórnkerfið og samfélagið allt“.
Í lok ræðu sinnar gat forsætisráðherra þess að tveir af þremur stjórnarflokkum hefðu verið stofnaðir árið 2016, fyrir níu árum. Annar þeirra „á stofugólfinu hjá stoltum öryrkja, baráttukonu á miðjum aldri, sem er lögblind og fékk ekki agnarögn af forréttindum í meðgjöf en skellti sér á skólabekk um fimmtugt til að læra lögfræði og hefur þegar náð ótrúlegum árangri í sinni baráttu fyrir tekjulægstu hópa samfélagsins, öryrkja og eldra fólk. Og nú er hún hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. Hvar annars staðar en á Íslandi? Hvar annars staðar en á Íslandi gæti þetta gerst?“
Taldi hún þetta sýna hvaða samfélag við hefðum að verja og án tillits til pólitískra skoðana mættum „við öll vera hreykin af þessu samfélagi sem við höfum byggt og vera stolt af Ingu Sæland“.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra flytut stefnuræðu sína 10. febrúar 2025 (mynd: mbl.is/Eyþór).
Sé litið yfir mánuðina tvo frá því að ræðan var flutt er erfitt að rökstyðja að hún hafi elst vel.
Samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu á alþingi er í molum. Þingmenn stjórnarandstöðunnar yfirgáfu þingsalinn mánudaginn 7. apríl vegna þess að þeir töldu fjárlagaáætlun lagða fyrir þingið án nauðsynlegra upplýsinga um efni hennar. Óskir þeirra um ítarlegri gögn séu að engu hafðar.
Upplýsingaleyndin snýr meðal annars að spurningum um hvernig farið hafi verið með tillögurnar 10.000 sem forsætisráðherra fagnaði sigri hrósandi í ræðu sinni. Svonefnd hagræðingarnefnd tók um 60 af þessum tillögum upp á sína arma en skilaði auðu varðandi ýmsar lykiltillögur af því að þær væru of pólitískar í eðli sínu. Tekur ríkisstjórnin á slíkum tillögum í fjárlagaáætlun næstu fimm ára? Eða kastar hún nær öllum tillögunum 10.000 frá sér? Hvað seytlar um stjórnkerfið þegar upp er staðið? Að ekkert breytist? Það eina sem gerst hafi sé að fyrir liggi hafsjór af aðfinnslum að úreltu og dýru regluverki sem lifir áfram góðu lífi?
Ríkisstjórnin gerir atlögu að útgerð og fiskvinnslu með tillögum um tvöföldun skatts án þess að virtar séu eigin reglur ríkisstjórnarinnar um samráð við hagaðila. Það er innbyggt í tillögur atvinnuvegaráðherra að skapa sem mesta óvild í garð útgerðarfyrirtækja. Ein af grunnstoðum stjórnarsamstarfsins er að það þrífist vegna árása ráðherra á sjávarútvegsfyrirtæki á landsbyggðinni.
Á mánuðunum tveimur hefur oflof forsætisráðherra um Flokk fólksins breyst í háð. Forsætisráðherra hefur kallað yfir sig trúnaðarbrest vegna Flokks fólksins